Ríkisstjórn Malís segir af sér vegna blóðbaðs

19.04.2019 - 07:31
Mynd með færslu
 Mynd: NN - Wikimedia Commons
Forsætisráðherra Afríkuríkisins Malí og ráðuneyti hans allt sögðu af sér í gær, fjórum vikum eftir að vígasveitir veiðimanna af Dogon-þjóð myrtu nær 160 hirðingja af Fulani-þjóðinni í hryllilegu blóðbaði. Forseti Malí, Ibrahim Boubacar Keita, samþykkti afsögn forsætisráðherrans og ríkisstjórnarinnar, en hann sagði í sjónvarpsávarpi á þriðjudag að hann hefði „heyrt reiði fólksins," án þess þó að nefna forsætisráðherrann Soumeylou Boubèye Maïga á nafn í því sambandi.

Í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofunni segir að nýr forsætisráðherra verði skipaður innan skamms og ný ríkisstjórn mynduð að höfðu samráði við allar helstu stjórnmálahreyfingar landsins, jafnt úr stjórn sem stjórnarandstöðu. Al Jazeera greinir frá því að þingmenn hafi þegar verið farnir að ræða um að leggja fram vantrauststillögu á stjórn Maïgas vegna blóðbaðsins og getuleysis stjórnarinnar við að afvopna hinar ýmsu vígasveitir í landinu og hemja uppgang þeirra.

Talið er nær öruggt að Dogon-veiðimenn hafi verið að verki í blóðbaðinu í hirðingjaþorpinu Ogossagou  hinn 23. mars, en Dogon- og Fulanimenn hafa átt í langvinnum og blóðugum deilum um beitiland og veiðilendur. Nokkru fyrr féllu 23 malískir hermenn þegar árás var gerð á bækistöð þeirra á þessum slóðum. Vígasveitir sem kenna sig við al Kaída lýstu því ódæði á hendur sér, en margir úr þeirra röðum tilheyra Fulani-þjóðinni. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi