Ríkissjóður tapaði milljörðum á aflandsfélögum

30.01.2017 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ríkissjóður varð af allt að 7 milljörðum króna á ári frá 1990 vegna fjármuna sem flutt var í skattskjól. Þetta er niðurstaða starfshóps um aflandsvæðingu sem fjallað var um í Kastljósi í kvöld. Það að komast hjá sköttum var ástæða þess að fjöldi landsmanna átti skúffufélög víða um heim. Stjórnvöld voru vöruð við og bent á regluverk sem flest nágrannalönd höfðu sett en án árangurs. Margir á því að stjórnvöld hafi látið plata sig, segir formaður stýrihópsins.

Ein af megin niðurstöðum starfshóps sem skipaður var til að kanna umfang og eðli viðskipta Íslendinga á aflandssvæðum er að skera úr um ástæður þess að fjármunum var komið þangað í stórum stíl. Í skýrslu starfshópsins segir:

„Eins og Panamaskjölin gefa til kynna var umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs einstakt í heiminum á þessum tíma. Aflvakinn var íslenska fjármálaundrið og drifkrafturinn skattahagræðing og virk markaðssetning íslenskrar sérbankaþjónustu í Lúxemborg.”

Í viðtali í Kastljósi í kvöld sagðist Sigurður Ingólfsson, sem leiddi vinnu starshópsins sem vann skýrsluna, ekki velkjast í vafa um megin ástæðurnar. 

„Eins og þetta birtist okkur er erfitt að sjá að það sé annað heldur en skattalegt hagræði sem drífur þetta mikla fjárhagsstreymi. Að hlíta ráðum sérfræðinga á sviði skattskipulagningar eða skattáætlanagerðar, það er væntanlega kjarni málsins um lang mestan hluta af þessu.“

Fyrir vikið má í raun heita að atvinnulífinu hafi á pappírum verið stýrt frá útlöndum í gegnum erlendra fjárfesta. En raunin var allt önnur.

„Þannig eru 56% Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar í eigu aflandsfélaga í árslok 2007, eða um 1.500 milljarðar króna. Þessi félög voru að langmestu leyti í eigu Íslendinga og sama gilti um óskráð félög í aflandseignarhaldi. Arður af eignunum leitaði einnig út fyrir landsteinana og á árunum 2003-2008 voru um 90 milljarðar króna greiddir í arð til erlendra félaga, sem að yfirgnæfandi meirihluta voru staðsett á lágskattasvæðum, flest í Lúxemborg og Hollandi,“ segir í skýrslu starfshópsins.

Útibú íslensku bankanna í Lúxemborg voru eins og Panamaskjölin sýndu, óhemju umfangsmikil í aflandsvæðingunni. Og vöktu líka athygli fyrir frjálslega umgengni við samningagerð. Í tölvupóstsamskiptum milli starfsmanna aflandsþjónustu Mossack Fonseca kemur fram að starfsmenn hafi fengið svo margar beiðnir frá Landsbankanum um að bakfæra dagsetningar á samningum aflandsfélaga viðskiptavina bankans, að Mossack Fonseca hafi ákveðið að byrja að rukka sérstaklega fyrir slíka þjónustu við viðskiptavini sína. Að breyta dagsetningum á samningum getur auðveldlega verið liður í skattaundanskotum eða lögbroti.

Landsbankinn í Lúxemborg var meðal umsvifamestu viðskiptavina Mossack Fonseca.  Bankinn var þannig tengdur á fimmta hundrað félögum í safni panamísku lögmannsstofunnar. Einungis sex bankar í öllum heiminum voru stærri kúnnar Mossack Fonseca.

En hvers vegna voru íslensku bankarnir og auðugir viðskiptavinir svo umsvifamiklir í því að komast hjá sköttum á Íslandi? Ástæðan var einföld: Það var ekki bannað. Skattalöggjöfin hér bauð einfaldlega upp á það, ólíkt nágrannalöndum okkar. Stjórnvöld vissu þó af þessu. Í skýrslu um skattsvik sem unnin var fyrir þau árið 2004, hafði til dæmis verið bent á það:

„Alþekkt og algengt afbrigði skattsvika felst í að stofna dótturfyrirtæki erlendis sem ekki hefur starfsemi með höndum en þjónar þeim tilgangi að flytja hagnað af innlendri starfsemi í annað land, oftast skattaparadís eða annað lágskattasvæði...Hraða þarf setningu svokallaðra CFC-ákvæða í íslenska skattalöggjöf.“

Tveimur árum síðar, í ágústbyrjun 2006, birtist þessi grein á vef fjármálaráðuneytisins: Þörfnumst við CFC-löggjafar? Í löngu máli var spurningunni svarað neitandi af íslenskum stjórnvöldum.

„Skattalöggjöfin var rýmri en annars staðar. Við Íslendingar skárum okkur úr að þessu leyti að það voru ekki Danir og Norðmenn og Svíar sem voru að koma með fjármagn til Lúxemborgar í sama mæli og við. Og menn hafa rakið það til þess að í þeim löndum hafa menn verið að innleiða reglur sem gerðu þessar fjárfestingar í rauninni ekki áhugaverðar skattalegar séð. ”

Tvísköttunarsamningar eiga að koma í veg fyrir að fyrirtæki sem er með starfsemi í einu landi, en eignarhaldið í öðru ríki, þurfi að sæta því að ávinningur af rekstrinum sé skattlagður í báðum ríkjum. En þá er að sjálfsögðu gengið út frá því að skattur sé greiddur að minnsta kosti í öðru landinu, ekki í hvorugu eins og raunin varð hér.

Árin 1999 og 2002 gerðu íslensk stjórnvöld tvísköttunarsamninga við Lúxemborg og Holland. Þeir samningar gera til dæmis arðgreiðslur og vaxtagreiðslur úr íslenskum fyrirtækjum til móður- systur-  eða dótturfyrirtækja í Hollandi og Lúxemborg, undanþegna skatti hér á landi. Enda gera samningarnir ráð fyrir að skattar séu greiddir af þeim þegar út er komið.

Í Hollandi og Lúxemborg var hins vegar hægt að stofna skúffufélög, sem borga litla eða jafnvel enga skatta - og því síður af arði eða vöxtum sem þangað koma. Og það var ekki síst þetta sem varð til þess að eignarhald fjölmargra fyrirtækja hér á landi fluttist í skúffur í Hollandi og Lúxemborg. Tvísköttunarsamningarnir gerðu því Holland og Lúxemborg að skattaparadísum. Og gera það raunar enn, eins skýrsluhöfundar benda á:

„Það er auðvitað ekki tilviljun hversu umfangsmikið eignarhald innlendra fyrirtækja fluttist til þessara landa á þenslutímanum. Lætur nærri að álykta að þessir samningar hafi aldrei náð tilgangi sínum, sem er að greiða fyrir erlendri vaxtarfjárfestingu á Íslandi, heldur nánast eingöngu verið nýttir til að forðast skattgreiðslur með málamyndaeignarhaldi. Þetta má kalla misnotkun á þessu samningsformi.“

Nú sé litið á samningana sem mistök af hálfu Íslendinga að sögn Sigurðar formanns stýrihópsins.

„Samningarnir eru bara einfaldlega notaðir svona já, þannig á endanum eru þetta mest Íslendingar með svona málamyndaeignarhald sem eru að koma frá þessum löndum. Það er fólk í hópnum sem þekkir mjög vel þarna til og úr ráðuneytinu og það eru margir gagnrýnir á þessa samninga og hvernig þeir voru sko. Og jafnvel finnst mönnum að Íslendingar hafi verið plataðir á vissan hátt við gerð þessara samninga. En ég held að það sé áhugi fyrir því að endurskoða þá.“

Ljóst er að eignir Íslendinga á aflandssvæðum eru nú einungis brot af því sem var fyrir hrun. Í skýrslu starfshópsins er reynt að giska á umfang þeirra í dag. Samkvæmt útreikningunum geti umfangið nú verið í kringum 230 milljarða króna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi