Ríkislögreglustjóri krafinn um gögn

30.11.2011 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðuneytið hefur farið fram á það við Ríkislögreglustjóra, að embættið afhendi þær upplýsingar sem Ríkisendurskoðun hefur beðið um. Ráðuneytið tekur ekki afstöðu til þess hvort ríkisendurskoðandi skuli víkja sæti.

Fyrir um mánuði síðan fór Ríkisendurskoðun fram á það við Ríkislögreglustjóra að embættið afhenti upplýsingar um 165 milljóna króna viðskipti við fyrirtækið RadíóRaf.

Ríkislögreglustjóri svarar því til, að eftir það sem á undan sé gengið ríki ekki traust og trúnaður á milli embættanna, en Ríkislögreglustjóri var afar ósáttur við ábendingu Ríkisendurskoðunar fyrir um tveimur mánuðum síðan.

Því fari Ríkislögreglustjóri fram á að Ríkisendurskoðandi víki sæti við meðferð málsins. Þar til Ríkisendurskoðandi hafi svarað þeirri beiðni muni Embætti ríkislögreglustjóra bíða með að svara erindinu.

Ríkisendurskoðandi ætlar ekki að víkja sæti í málinu, og fór hann fram á það við innanríkisráðuneytið, að það veitti aðstoð við að fá upplýsingarnar frá Ríkislögreglustjóra.

Ráðuneytið svaraði erindinu í dag. Þar kemur fram að ráðuneytið taki ekki afstöðu til þess hvort ríkisendurskoðandi skuli víkja sæti í málinu. Í ljósi laga um Ríkisendurskoðun fari ráðuneytið hins vegar fari fram á það að ríkislögreglustjóri afhendi Ríkisendurskoðun umbeðnar upplýsingar.

Ráðuneytið gefur ríkislögreglustjóra frest til mánudagsins næsta, 5. desember, til að afhenda upplýsingarnar.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi