Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

„Ríkislausnin“ hamli samkeppni

04.05.2015 - 07:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að leiðin sem fjármálaráðuneytið og ríkisskattstjóri fóru við lækkun verðtryggðra húsnæðislána hafi leitt til samkeppnishindrana á símamarkaði. Það sé vegna kröfunnar um að fólk hefði rafræn skilríki frá Auðkenni til að fá skuldalækkunina.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, fjallar um þetta í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Fólk fékk skuldir sínar ekki lækkaðar í samræmi við leið stjórnvalda, Leiðréttinguna, nema það hefði eða fengi sér rafræn skilríki frá Auðkenni. 

Ólafur segir í samtali við fréttastofu að fleiri en skuldarar hafi verið þvingaðir til samstarfs. „Það eru á þessu líka hliðar sem snúa að fyrirtækjum í landinu, ekki hvað síst fjarskiptafyrirtækjunum sem var með afskaplega stuttum fyrirvara gert að breyta sínum kerfum, og átti í rauninni líka að þröngva þeim í viðskipti við þetta fyrirtæki sem var ekki hugsað til enda.“

Ólafur segir í grein sinni að þótt Auðkenni hafi verið í samstarfi við stjórnvöld um þróun rafrænna skilríkja og undirskrifta hafi fyrirtækið ekki einkarétt á að þróa eða veita slíka þjónustu. Fleiri fyrirtæki hafi átt slíkar lausnir tilbúnar en ekki fengið að bjóða í uppsetningu lausnar á vef ríkisskattstjóra. Þess í stað hafi verið samið við Advania og Auðkenni án útboðs. Síðan hafi komið í ljós að ýmislegt virkaði ekki sem skyldi.

Ólafur gagnrýnir að leiðin sem var farin hafi í för með sér samkeppnishindranir af tvennu tagi, að minnsta kosti. Hann segir að símafyrirtækjunum hafi í raun verið stillt upp við vegg þar sem þau hefðu átt á hættu að missa viðskiptavini ef þau byðu ekki upp á „ríkislausnina" frá Auðkenni. Þá hafi viðskiptavinum farsímafyrirtækja verið gert erfiðara fyrir en áður að skipta um símafélag, það er vegna þess að meira mál sé að flytja rafrænu skilríkin en símanúmerið.

Fréttastofa greindi frá því í síðasta mánuði að Auðkenni hyggist rukka símafélögin fyrir rafrænu skilríkin frá áramótum. Nova er byrjað að rukka viðskiptavini fyrir notkun rafrænna skilríkja. Ólafur segir í grein sinni að eðlilegast væri að Auðkenni rukkaði fólkið sem notar rafrænu skilríkin frekar en símafélögin, sem síðan yrðu að rukka viðskiptavinina eða taka á sig kostnaðinn. „Það er að minnsta kosti fráleitt að bankarnir, sem með rafrænum skilríkjum hafa sparað sér kostnað vegna auðkennislykla handa viðskiptavinum sínum, velti honum beina leið yfir á fjarskiptafyrirtækin." Hann veltir líka fyrir sér hvernig staðið verður að innheimtu og gjaldtöku af fyrirtækjum sem nýta sér lausnina og og Auðkenni hyggist rukka miklu hærri upphæð en keppinautarnir í krafti þeirrar stöðu sem fyrirtækið komst í vegna lækkunar á verðtryggðum húsnæðisskuldum.