Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Ríkisborgararétturinn ekki til sölu

31.03.2011 - 08:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir það almennt sína skoðun að ríkisborgararétturinn eigi ekki að vera til sölu. Það var einnig niðurstaða ráðuneytisins þegar málefni erlendra athafnamanna sem vilja fjárfesta hér á landi voru skoðuð.

Hópur íslenskra athafnamanna þrýstir á allsherjarnefnd Alþingis að veita tíu fjársterkum Kanadabúum og Bandaríkjamönnum ríkisborgararétt með undanþágum. Fólkið er sagt hafa yfir að ráða jafnvirði um 1.700 milljarða króna sem það vill nýta til að fjárfesta á Íslandi. Þessi upphæð jafnast á við heildareignir íslensku lífeyrissjóðanna, að því er kom fram í Kastljósi í gærkvöldi.


Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra segir að málið hafi verið skoðað innan ráðuneytisins. Niðurstaðan hafi verið sú að ríkisborgararétturinn væri ekki söluvara.


Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar Alþingis, sagði í fréttum í gær að mikilvægt væri að ræða það hvort nota ætti íslenskan ríkisborgararétt til að laða hingað fólk sem vill fjárfesta.


Ögmundur kveðst vilja stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Hann segir að það yrði nýlunda á Íslandi ef ríkisborgararéttur færi að ganga kaupum og sölum. Hann segir að sér sé ekki kunnugt um að það tíðkist annars staðar. Alltént sé sér ekki kunnugt um slíkt. Sín skoðun sé sú að Íslendingum beri að stíga varlega til jarðar þegar Mammon gamli er annars vegar.