Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ríkis en ekki einkarekstur heilbrigðismála

29.07.2015 - 22:32
Landspítalinn við Hringbraut.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Stuðningur Íslendinga við að meira fé ætti að veita til heilbrigðismála og að hið opinbera reki heilbrigðisþjónustuna hefur aukist mjög frá 2006 samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskólans. Mjög lítill stuðningur er við einkavæðingu hennar.

Rúnar Vilhjálmsson prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands stýrði könnuninni Heilbrigði og lífshættir Íslendinga á þessu ári eins og hann gerði árið 2006. 1600 íslenskir ríkisborgarar á aldrinum 18 til 75 ára tóku þátt í könnuninni og svöruðu spurningalistum fyrri hluta þessa árs.

„Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna telur að verja eigi meira fé til heilbrigðismála af opinberri hálfu. Einnig kemur í ljós að mikill meirihluti landsmanna telur að hið opinbera eigi fyrst og fremst að reka og starfrækja heilbirgðisþjonustuna. Ef við miðum við niðurstöður 2006 þá sér maður að það er heldur aukinn hlutur eða hlutfall sem að vill að hið opinbera standi að rekstri einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar.“, segir Rúnar. 

Tæpt 91% var hlynnt því að hið opinbera, það er ríki og sveitarfélög, leggðu meira fé, miðað við það sem nú er, til heilbrigðisþjónustu, 1,3% sögðu óbreytt fé og tæp 8% minna fé. Árið 2006 vildu 81,5% meira fé, 16,5% óbreytt fé og tæp 2% minna fé.

Meirihluti þeirra, sem þátt tóku í könnuninni, vill að sjúkrahús séu fyrst og fremst rekin af hinu opinbera, sama er að segja um heilsugæslustöðvar, hjúkrunarheimili, heimahjúkrun, endurhæfingarstöðvar og lýðheilsustarfsemi. Eina undantekningin er læknastofur. Þar vill tæpur helmingur að þær séu jafnt reknar af einkaaðilum og hinu opinbera. Meirihlutinn vill að tannlækningar barna séu reknar af hinu opinbera. Minni munur er á tannlækningum fullorðinna. 

„Það er ekki hægt að sjá stuðning við það sjónarmið að rekstur eigi í vaxandi mæli að færast til einkaaðila. Þvert á móti virðist þarna vera kallað eftir aukinni félagsvæðingu getum við sagt þar sem ríkið komi í meira mæli heldur en nú er að ýmsum þáttum í heilbriðgisþjónustunni.“, segir Rúnar Vilhjálmsson. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV