Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ríkið verði að greiða forseta laun

18.05.2016 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkinu ber að greiða embættismönnum laun og því geta hvorki ráðherrar né forseti Íslands afsalað sér launum fyrir vinnu sína. Þetta hefur Kjarninn eftir Fjársýslu ríkisins og skrifstofustjóra hjá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Davíð Oddsson hefur sagt í kosningabaráttunni að hann hyggist afsala sér launum verði hann forseti og Ögmundur Jónasson þáði ekki ráðherralaun heldur aðeins þingfararkaup þegar hann var ráðherra í tíð vinstristjórnarinnar sem var við völd á síðasta kjörtímabili.

Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, segir í samtali við Kjarnann að laun embættismanna hjá ríkinu séu lögákveðin og ríkið verði að greiða embættismönnum þau laun. Þeir verði að standa skil á sköttum og gjöldum en ráði því svo hvað þeir geri við launin. 

Fréttastofa hefur fengið staðfest að engar athugasemdir voru gerðar við það, af hálfu ríkisins, að Ögmundur afsalaði sér ráðherralaunum á sínum tíma. 

Orð Davíðs Oddssonar um að hann afsali sér forsetalaunum verði hann forseti, og þiggi aðeins eftirlaun, hafa vakið athygli. Þau lét hann fyrst falla í þættinum Eyjunni á Stöð 2 um síðustu helgi.

Formenn stjórnmálaflokka sem sitja á Alþingi en eru ekki ráðherrar eiga rétt á 50 prósenta álagi á þingfararkaup sitt vegna formennskunnar. Dæmi eru um að menn hafi hafnað því álagi, til dæmis þingmenn Pírata og Hreyfingarinnar sem hafa verið skráðir formenn. Þannig hefur flokkurinn fengið aðstoðarmann formanns stjórnmálaflokks til að vinna fyrir sig en ekkert launaálag hefur verið greitt vegna formennskunnar.

Leiðrétt 12:13 Gunnar er Björnsson en ekki Kristjánsson eins og misritaðist í upphaflegri gerð fréttarinnar.

Frétt uppfærð 12:23.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV