Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ríkið styrkir fjölgun rafhleðslustöðva

16.05.2016 - 08:47
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnvöld munu brátt auglýsa sérstaka styrki til fyrirtækja sem vilja setja upp hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla. Ríkið ætlar að verja 67 milljónum á ári næstu 3 árin í að fjölga hleðslustöðvum. Enn er ekki ljóst hvort fyrstu styrkirnir fara í hleðslustöðvar við hringveginn eða í að rafbílavæða ákveðna byggðakjarna.

Þetta er gert til að flýta fyrir orkuskiptum sem eru á stefnu stjórnvalda og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Rafbílavæðingin er löngu hafin á Íslandi og margir telja skynsamlegt að annar bíll á heimili sé rafbíll en hörgull á hraðhleðslustöðvum tefji fyrir rafbílavæðingunni. Nú styttist í útspil stjórnvalda til að fjölga þessum stöðvum, segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. 

,,Í tengslum við loftslagsráðstefnuna í París voru sett af stað ákveðin markmið og eitt af þeim verkefnum sem komu og heyra undir mitt ráðuneyti er einmitt að hvetja til frekari fjárfestinga í þessu og í því skyni voru settir til hliðar fjármunir; 67 milljónir króna á ári í þrjú ár," segir Ragnheiður Elín.

Styrkir verði ekki bara ætlaðir í að setja upp staura heldur líka í markaðssetningu og vitundarvakningu. Orkusjóður muni sjá um að úthluta en forgangsröðun sé enn óljós. ,,Það er verið að skoða hvernig skynsamlegast er að fara í þetta. Hvort það verði hringvegurinn allur undir í fyrsta kasti eða hvort það verði teknir ákveðnir þéttbýlisstaðir til að byrja með. En við þurfum að koma að þessu verkefni til hvatningar og kannski að aðstoða frumkvöðla og fyrirtæki að fara af stað."