Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ríkið kosti tónlistarnám út 2015

10.06.2015 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Allsherjar- og menntamálanefnd lagði í gær fram frumvarp um að ríkið fjármagni hljóðfæranám á framhaldsstigi í tónlistarskólum landsins út árið 2015. Kostnaðurinn við þetta verður 520 milljónir króna.

Með frumvarpinu er í raun lagt til að samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms frá árinu 2011 verði framlengt eitt ár í viðbót. Með téðu samkomulagi var ákveðið að ríkið stæði straum af kennslukostnaði vegna söngnáms á miðstigi og söng- og hljóðfæranáms á framhaldsstigi í tónlistarskólum landsins.

Samkomulagið rann út um síðustu áramót. Upp á síðkastið hafa menn deilt um hvort rétt sé að framlengja það eða ekki.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, hefur sagt að fyrirkomulagið sem komið var á fót með þessu samkomulagi hafi ekki gefið góða raun. Tónlistarskólar í Reykjavík standi ekki undir sér og gjaldþrot blasi við mörgum þeirra. Hann telur mikilvægt að leita nýrra leiða við fjármögnun tónlistarnáms. Ein leiðin sem nefnd hefur verið er sú að láta fjármagns ríksins renna í einn tónlistar-framhaldsskóla sem hefði aðsetur í höfuðborginni og gæti staðið undir öflugri tónlistarkennslu.

Þessi áform hafa farið illa í skólastjóra margra tónlistarskóla á landinu. Þeir hafa sagt að framtíð tónlistarkennslu á landsbyggðinni verði stofnað í hættu ef samkomulagið frá árinu 2011 verði numið úr gildi.

Nú virðist ríkja einhugur um að þetta samkomulag verði framlengt, að minnsta kosti út árið 2015, því frumvarpið er lagt fram að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, að undangengnu samráði við fjármála-, velferðar- og innanríkisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Samtök tónlistarskóla í Reykjavík.

Sérstök áhersla er þó á það lögð að um er að ræða tímabundið inngrip löggjafans í alvarlega stöðu, „sem hefur ekki aðeins valdið mikilli óvissu í tónlistarskólum og ógnað rekstraröryggi þeirra, heldur hafa ýmis önnur lögbundin og ólögbundin verkefni einnig verið í uppnámi." Unnið er að því að ná samkomulagi milli sveitarfélaga, tónlistarskóla í Reykjavík og ríkisins um heildstæða framtíðarlausn á fjármögnun tónlistarkennslu í landinu.

Hér má kynna sér efni frumvarpsins sem lagt var fram í gær.

Athugasemd klukkan 12:57

Upphaflega stóð í fréttinni að ekki væri heimild í fjárlögum til að leggja 520 milljónir króna til að standa straum af kennslukostnaði við framhaldsnám í tónlistarskólum landsins. Raunin er sú að heimildin er til staðar í fjárlögum, og ríkið hefur á grundvelli þessarar heimildar greitt mánaðarlegt framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga það sem af er ári.