Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríkið grípur til fullra varna ef ekki nást sættir

Mynd: RÚV / RÚV
Viðræður um bótagreiðslur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hefjast að nýju nú í desember, að sögn setts ríkislögmanns. Vonast er til að niðurstöður náist um fullnaðarbætur og að dómsmál verði þá felld niður. Alþingi samþykkti í gærkvöldi lög um bótagreiðslur til hinna sýknuðu og erfingja þeirra sem látnir eru. Þá hefur forsætisráðuneytið gefið út leiðbeiningar um verklag í samskiptum ráðuneyta og stofnana við embætti ríkislögmanns.

Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að ríkið hefði miðað við að allt að átta hundruð milljónir yrðu greiddar í bætur en sú upphæð kunni að taka einhverjum breytingum í samningaviðræðum. Guðjón Skarphéðinsson, einn hinna sýknuðu, hefur stefnt ríkinu og gert 1300 milljóna bótakröfu.

Áfram krafist sýknu náist ekki samkomulag

Fyrirtaka í málinu verður í fyrstu viku janúar. Að sögn Andra Árnasonar, setts ríkislögmanns í málinu, verður þá væntanlega áfram krafist sýknu af hálfu ríkisins, náist ekki samkomulag um fullnaðarbætur á grundvelli hinna nýju laga.

Andri segir að mögulega verði gerðar einhverjar breytingar á kröfugerð ríkisins, þótt ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um það. Alltaf hafi verið ætlunin að fara í fulla vörn ef ekki næðust sættir.

Til að mynda verði mjög líklega áfram hafðar uppi þær varnir að hinir sýknuðu hefðu mögulega átt einhvern þátt í því að rangur dómur hafi verið kveðinn upp eða í hvaða rannsóknaraðgerðir var farið. Með nýju lögunum geti ríkið þó ekki lengur hafnað bótaskyldu. Hins vegar verði farið fram á sýknu telji ríkið að þær bætur sem greiddar hafi verið samkvæmt nýju lögunum séu fullnaðarbætur. 

Forsætisráðherra gagnrýnd fyrr að lesa ekki greinargerðina

Í dag birti forsætisráðuneytið nýjar leiðbeiningar um verklag í samskiptum ráðuneyta og stofnana við embætti ríkislögmanns. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var í september gagnrýnd fyrir að hafa ekki lesið greinargerð ríkislögmanns í málinu áður en hún var lögð fram. Hún sagði það hafa verið mistök. Umboðsmaður Alþingis hafi áður bent á að bæta þurfi samskipti milli ríkislögmanns og framkvæmdavaldsins og það myndi hún nú gera.

Í leiðbeiningunum segir að afstaða ríkisins í dómsmálum, sem borgararnir höfða á hendur því, mótist í samstarfi þess ráðuneytis eða ríkisstofnunar, sem á í hlut, og ríkislögmanns. Þar er að leiðarljósi haft að gæta hagsmuna ríkisins með málefnalegum hætti í samræmi við lög. 

Endanlega ábyrgð liggi hjá ráðherra eða ríkisstofnun

Þá kemur fram að forræði á kröfugerð og útfærslu málsástæðna í dómsmálum sé á hendi ríkislögmanns. „Þessar athafnir ríkislögmanns eru allar í umboði þess ráðherra eða eftir atvikum þeirrar ríkisstofnunar sem er í fyrirsvari í viðkomandi máli. Þar liggur endanleg ábyrgð á þeirri afstöðu sem ríkið tekur í hverju máli,“ segir í leiðbeiningunum.

Ríkislögmaður fari þá með uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkissjóði. Hann metur kröfur sem koma fram, leitar samkomulags um þær, hafnar þeim og/eða greiðir þær út. „Tekið skal fram, að ákvörðunarvald um það, hvort bótaskylda sé viðurkennd í einstökum tilvikum eða ekki, liggur eftir sem áður hjá þeim aðilum sem kröfum er beint gegn.“ 

Þá segir að ríkislögmaður eigi að fá fram afstöðu hlutaðeigandi ráðuneytis eða stofnunar áður en hann ákveði að fallast á bótakröfu eða hafna henni. Hann meti hvort þörf sé á að senda drög að greinargerð til yfirlestrar í viðkomandi ráðuneyti. Þá getur ráðuneyti einnig sérstaklega óskað eftir því. 

Það ráðist svo af almennum reglum um skipulag ráðuneyta og af eðli álitamála og umfangi, að hvaða marki ákvarðanir sem varða kröfur á hendur ríkinu koma til kasta ráðherra og að hvaða marki þær eru teknar af ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra eða starfsmanni ráðuneytis fyrir hönd ráðherra, segir þá þar.