Ríkið grípi ekki inn í erfiða stöðu flugfélaga

20.08.2018 - 19:38
Ekki hefur komið til tals að ríkið grípi inn í erfiða stöðu stóru íslensku flugfélaganna með neinum hætti. Starfshópur kannar þó stöðu félaganna og forsætisráðherra segir ríkisstjórnina fylgjast náið með þróun mála á flugmarkaði.

Talsvert hefur verið fjallað um erfiðan rekstur stóru íslensku flugfélaganna undanfarið. Fram hefur komið að Icelandair tapaði 6,3 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins, þrefalt hærri fjárhæð en á sama tíma í fyrra, og hlutabréf í félaginu hafa hríðfallið. Wow Air tapaði 2,4 milljörðum króna í fyrra eftir að hafa hagnast um 3,9 milljarða króna árið áður. Eiginfjárstaða Wow air er slæm, og hyggst félagið á næstunni afla sex til tólf milljarða króna í skuldabréfaútboði til að fjármagna félagið þar til hlutafjárútboð fer fram, og það skráð á markað í framhaldinu.  

„Í dag var haldinn fundur í ráðherranefnd um samræmingu mála þar sem við fórum yfir þessa stöðu. Það liggur algjörlega fyrir að staðan á evrópskum flugmarkaði almennt er þung, þannig að við fylgjumst auðvitað náið með þróun mála. En þetta eru auðvitað einkafyrirtæki á markaði og það ber auðvitað að líta til þeirra sem slíkra,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Mikilvægi flugfélaganna fyrir hagkerfið á Íslandi er óumdeilt enda ferðaþjónustan stærsta útflutningsgrein landsins. Félögin hafa þó ekki óskað eftir neinni aðstoð frá ríkinu í þeirri stöðu sem upp er komin.

„Þau hafa ekki óskað eftir neinni aðstoð frá ríkinu. Það hefur ekki komið til tals að ríkið grípi inn í á neinn hátt,“ segir Katrín.

Ríkisstjórnin kom í vor á fót starfshópi um kerfislega mikilvæg fyrirtæki á Íslandi, sem kannar nú meðal annars stöðu flugfélaganna tveggja. Gert er ráð fyrir að hópurinn birti niðurstöður sínar með haustinu.

„Það er ekki ríkisábyrgð á flugfélögum hér á landi svo að það sé sagt. Það sem við erum að gera, er að við erum að fylgjast vel með stöðu kerfislegra mikilvægra fyrirtækja, því það getur auðvitað haft áhrif á stöðu efnahagsmála hér fram undan. Það er auðvitað mikilvægt að fylgjast vel með en eins og ég sagði hér áðan þá eru þetta einkafyrirtæki á markaði. Þau skipta hins vegar máli fyrir þjóðarbúið þannig að það er það sem að okkur snýr,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi