Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Reynir að fá Davíð lausan úr haldi í dag

11.03.2013 - 08:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Ræðismaður Íslands í Ankara ætlar að beita sér fyrir því í dag að Davíð Erni Bjarnasyni sem situr í fangelsi í Tyrklandi, grunaður um að hafa ætlað að smygla fornmunum úr landinu, verði sleppt.

Davíð Örn var handtekinn á föstudag á flugvellinum í Antalya þegar grjót sem hann keypti á markaði fannst í ferðatösku hans. Selim Sariibrahimoglu, ræðismaður Íslands í Ankara, segir að hann hafi rætt við Davíð strax á föstudag eftir handtöku hans og fullvissað hann um að menn væru að gera sitt besta fyrir hann.

Selim segist strax á föstudag hafa reynt að fá Davíð lausan, hann hafi bent á að maðurinn væri ábyrgur þriggja barna faðir og enginn hætta á að hann myndi reyna að flýja. Það hafi ekki tekist þar sem helgin var að ganga í garð og saksóknari vildi kynna sér málið betur. Selim ætlar að senda fulltrúa sinn á fund saksóknara í dag og reyna að fá hann lausan.

Hann segir að menn líti smygl á fornmunum mjög alvarlegum augum í Tyrklandi og að refsingin við því sé þriggja til sex ára fangelsi. Hann þekkir önnur dæmi þess að ferðamenn hafi verið handteknir grunaðir um að smygla fornmunum úr landi. Sérstaklega vel sé fylgst með þessu á ferðamannastöðum á borð við Antalya.