Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Reyndu ítrekuð innbrot í kosningakerfin vestra

Mynd með færslu
Donald Trump vann óvæntan sigur í forsetakosningunum. Mynd: EPA
Leyniskjal innan úr bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni sýnir að menn á vegum leyniþjónustu rússneska hersins hafi ítrekað reynt að brjótast inn í tölvukerfin sem notuð voru í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust. Þetta mun hafa átt sér stað mánuðum saman, þar til nokkrum dögum fyrir kosningarnar 8. nóvember.

Bandaríski vefmiðillinn The Intercept, sem sérhæfir sig í skrifum um þjóðaröryggismál, greinir frá skjalinu og segir að af því megi ekki ráða hvort tölvuþrjótarnir hafi haft erindi sem erfiði eða hvort þeim hafi tekist að hafa áhrif á kosningarnar.

Donald Trump vann óvæntan sigur í forsetakosningunum vestanhafs í haust. Því hefur verið haldið fram að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar til að auka líkur á kjöri hans. Yfirmenn í leyniþjónustu Bandaríkjanna hafa oftsinnis fullyrt að tölvuþrjótum hafi ekki tekist að hafa nein áhrif á talningu atkvæða eða skráningu kjósenda.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði fyrir nokkrum dögum að það væri þvæla að rússnesk yfirvöld hefðu reynt að hafa afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Hann bætti því þó við að hann gæti ekki útilokað að rússneskir tölvuþrjótar, ótengdir stjórnvöldum, hefðu komið þar nærri.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV