Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Reyndu ítrekað að fá Múrbúðina í samráð

17.05.2014 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar reyndu í þrígang að koma á verðsamráði við starfsmann Múrbúðarinnar. Kvörtun frá Múrbúðinni varð upphaf rannsóknar á meintu verðsamráði sem sérstakur saksóknari hefur nú ákært þrettán fyrir.

Starfsmenn Byko, Húsasmiðjunnar og ÚIfur byggingavörur skiptust reglulega á upplýsingum um verð á ákveðnum vöruflokkum, samkvæmt ákæru sérstaks saksóknara.

Brotin stóðu frá haustinu 2010 og fram í mars 2011, samkvæmt ákæru. Um miðjan þann mánuð, í mars 2011, voru hátt í tuttugu manns handteknir og yfirheyrðir vegna samkeppnisbrota.

Ráðist var í aðgerðirnar eftir kæru frá Samkeppniseftirlitinu. Þar var byrjað að rannsaka máið í kjölfar kvörtunar frá Múrbúðinni. Samkvæmt ákæru sérstaks saksóknara reyndi sölumaður hjá Byko að fá starfsmann Múrbúðarinnar til að skiptast á upplýsingum við sig um verð og vöruúrval, að morgni 15. október.

Strax á eftir hringdi vörustjóri Húsasmiðjunnar í sama tilgangi og loks annar vörustjóri Húsasmiðjunnar. Sá tiltók sérstaklega að ekki ætti að senda upplýsingarnar í tölvupósti. Þessir starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar eru ákærðir fyrir brot á samkeppnislögum, sem og tíu aðrir.  

Maðurinn sem gengdi starfi forstjóra hjá Húsasmiðjunni, þegar meint brot voru framin, er ekki ákærður í málinu. En í ákærunni kemur fram að stjórnandi í fyrirtækinu hafi greint honum frá fyrirætlunum Byko um að minnka afslætti á Akureyri og Selfossi.