Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Reyndi að bjóða Trump versta nammi í heimi

Mynd:  / 

Reyndi að bjóða Trump versta nammi í heimi

26.11.2018 - 13:59

Höfundar

Geir Konráð Theodórsson uppfinningamaður í Borgarnesi hefur búið til versta nammi í heimi að eigin sögn. Um er að ræða vegan-hákarlanammi sem er afrakstur mikilla rannsókna og ítarlegra bragðprófana.

„Þetta byrjaði sem brandari og verkefni í vöruhönnun í Listaháskólanum, ég hugsaði með mér að það væri fyndið að setja hákarlsbita í brjóstsykursmola, hafa það sem mjúku miðjuna,“ segir Geir Konráð í viðtali við Morgunútvarpið. Fljótlega hafi þó komið í ljós slíkt væri brot á öllum helstu heilbrigðisreglugerðum. Nýlega tók hann þó aftur upp þráðinn og ákvað þá að hafa nammið vegan, líkja eftir hákarlinum frekar en að nota alvöru hákarl.

„Ég komst að því að tvö virk efni gáfu honum þetta sérstaka bragð, það var ammóníakið, og svo trímeðlamín sem gefur þetta rotnaða fiskilíkibrag,“ segir Geir sem hóf tilraunir í kjölfarið og prófaði svo afurðirnar. „Vesalings fjölskyldan mín og vinir hérna í Borgarnesi þurftu að smakka þessar tilraunir þangað til ég var kominn með eitthvað sem var nálægt því að vera hákarl.“ Nammið var að mestu leyti gert úr sykri og kartöflumjöli sem gefa því þessa hlaup- og strengjakenndu áferð sem Íslendingar þekkja svo vel. Hann endaði þó á því að sleppa trímeðlamíninu. „Þetta mátti ekki alveg vera þannig að fólk kúgaðist í hvert skipti, þetta átti að vera skemmtilegt en ekki algjörlega skelfilegt.“ Sem ammóníak nýtti hann svo hjartasalt, sem er notað í bakstur, til að húða nammið.

Geir Konráð notar sjálfur frasann „líklega versta nammi í heimi“ utan á umbúðirnar, sem líklega einhverjir markaðsfræðingar myndu fetta fingur út í. „Ég hugsaði með mér, það virðist vera þjóðaríþrótt Íslendinga að troða þessu ofan í útlendinga. Þegar þú gúgglar Ísland kemur þetta oft upp, til dæmis Gordon Ramsey að æla hákarl í frægu myndbandi. Þannig ég hugsaði að í staðinn fyrir að reyna að fela þetta og skammast sín, þá fagna þessu og nota það.“

Mynd með færslu
Umbúðir hákarlanammisins virka líka sem póstkort.

Hann vonast til að geta selt nammið til ferðamanna en umbúðirnar eru hannaðar eins og póstkort, tvö pappaspjöld og hákarlsbitarnir, tannstöngull og leiðbeiningar innan í. „Þar er útskýrt hvernig á að borða þetta eins og Íslendingur, og mælt með því að drekka Brennivín með. Þú getur bara skellt á þetta frímerki og sent ömmu þinni í pósti.“ Geir framleiðir nammið í Borgarnesi og selur það í Landnámssetrinu þar sem hann vinnur líka sem leikari og segir ferðamönnum sögur. Á næstunni hyggst hann koma namminu í frekari dreifingu og vonast til að það nái einnig fótfestu á þorrablótum. „Það er alltaf vaxandi fjöldi á blótunum sem borðar ekki matinn því þau eru grænmetisætur. Þarna er loksins kominn möguleika fyrir þá sem eru vegan til að vera með í stemmningunni.

En hvern væri Geir helst til í að sjá borða versta nammi í heimi? „Fyrir tveimur vikum síðan var ég í Washington og reyndi fá inngöngu í Hvíta húsið. Ég hugsaði með mér að það væri skemmtilegt að bjóða Trump, heimsins versta nammi fyrir heimsins versta forseta. Þetta var svona grín milli mín og kærustunnar að reyna að koma þessu á kortið þannig. Það gekk því miður ekki en ég náði skemmtilegri mynd við Hvíta húsið og skemmti sjálfum mér. Það var alveg nóg,“ segir Geir að lokum.

Rætt var við Geir Konráð Theódórsson í Morgunútvarpinu.