Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Reyna kortasvindl á lélegri íslensku

21.09.2015 - 22:41
Online shopping with a credit card.
 Mynd: Daniel Foster - flickr.com
Nokkrir viðskiptavinir Símans hafa í kvöld fengið tölvupóst þar sem óprúttnir menn reyna að komast yfir greiðslukortaupplýsingar þeirra. Svindlararnir virðast þó ekki þeir færustu í íslensku því skilaboðin bera þess öll merki að vera þýdd á íslensku með aðstoð tölvu.

Síminn staðfesti við fréttastofu að hafa fengið nokkrar ábendingar frá fólki sem hefði fengið tölvupóst frá svindlurunum. Fyrirtækið setti einnig frétt á vef sinn þar sem viðskiptavinir eru varaðir við „þrjótum sem hafa sent tölvupóst þar sem óskað eftir eftir kreditkortaupplýsingum í nafni fyrirtækisins. Síminn biður aldrei um kreditkortaupplýsingar í tölvupósti.“

Síminn hvetur viðskiptavini sína og aðra sem kunni að hafa fengið póstinn að hafa varann á sér og eyða póstinum. Hafi einhverjir fallið í gryfjuna er þeim bent á að hafa samband við viðskiptabanka sinn.

Kæri viðskiptavinur Síminn,,

Það virðist sem einhver annar að nota reikninginn þinn.

Öryggisatriði við höfum lokað reikningnum þínum

Við þurfum upplýsingar til að leysa þetta vandamál

Smelltu hér

© Síminn 2015)

Tengillinn vísar síðan á eyðublað þar sem fólki er uppálagt að gefa upp ýmsar upplýsingar, þar á meðal greiðslukortanúmer.

Í lok fréttarinnar á vef Símans segir:

Um leið og við hjá Símanum hörmum að traustið sem Síminn hefur áunnið sér sé misnotað ítrekum við: Aldrei gefa upp kreditkortanúmer til þriðja aðila með þessum hætti.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV