Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Reykmengun barst úr kísilveri

17.11.2016 - 15:19
Mynd: RÚV / RÚV
Íbúar í Reykjanesbæ hafa margir kvartað undan því að mengun berist frá kísilveri United Silicon í Helguvík og segja að súra brunalykt hafi lagt yfir bæinn í gær og í dag. Fyrir mistök fór reykur frá bræðsluofni út um dyr verksmiðjunnar, í stað þess að fara í gegnum hreinsunarvirki.

Frá þessu er greint á vef Víkufrétta, en í morgun greindi miðillinn frá megnri óánægju íbúa í bænum. Það sama gerði Stundin

Samkvæmt upplýsingum sem Umhverfisstofnun gaf Víkurfréttum  er ástæðan fyrir lyktarmenguninni sú að blásarar sem eiga að dæla reyk frá ofnum og ofnhúsi voru stilltir á lágan styrk vegna vinnu við svokallað reykhreinsivirki. Fyrir mistök hafi styrkurinn ekkk verið aukinn fyrr en í gærkvöldi að nýju, og þess vegna hafi reykur sloppið út um dyr verksmiðjunnar í gær.

Jafnframt er tekið fram að styrkur mengunarefna í andrúmslofti frá kísilverinu hafi ekki farið yfir heilsuverndarmörk, en fylgjast má með þeim mælingum á vefnum andvari.is.

Í svari Umhverfisstofnunar til Víkurfrétta kemur jafnframt fram að vel sé fylgst með gangi mála hjá United Silicon, sérstaklega þar sem byrjunarörðugleikar fylgi alltaf nýjum verksmiðjum. Kísilver United Silicon var gangsett um liðna helgi. Stofnunin hvetur íbúa til að láta í sér heyra ef slíkt atvik kemur aftur upp.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV