Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Reykjavík og Airbnb í samstarf

13.12.2018 - 10:52
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavík
Reykjavíkurborg og heimagistingarvefurinn Airbnb hafa komist að samkomulagi um að þeim sem bjóða heimili sitt til leigu á vefnum verði gert kleift að birta skráningarnúmer sitt með skráningunni. Reitur fyrir skráningarnúmerið verður opnaður notendum í dag.

Þeir sem hyggjast leigja heimili sitt, eða hluta af því, út í gegnum heimagistingaþjónustur á borð við Airbnb er skylt að skrá heimagistinguna rafrænt hjá sýslumanni. Ný lög um skráningu heimagistingar tóku gildi um áramótin 2016/2017 en með þeim var fólki skylt að sækja um leyfi fyrir heimagistingu og að fjöldi leigudaga á ári yrði takmarkaður við 90 daga, ef ekki sé sótt um sérstakt rekstrarleyfi.

Með samstarfi Reykjavíkur og Airbnb verður notendum gert kleift að birta skráningarnúmer sín, eins og lögin krefjast, með einföldum hætti. Samstarfið miðar að því að gera heimagistingu í Reykjavík eins ábyrga og mögulegt er.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg er haft eftir Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, að í viðræðum við Airbnb hafi verið snert á ýmsum þáttum heimagistingar vegna mikillar aukningar ferðamanna sem hafi haft mikil áhrif á samfélagið í borginni. „Við viljum leggja áherslu á mikilvægi þess að allt ferlið við heimagistingu sé gagnsætt, sýnilegt og upp á borðum og að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu geti auðveldlega haft eftirlit með og fylgt eftir gildandi ákvæðum laga um heimagistingu.  Þessi viðbót á heimasíðu Airbnb er einn áfangi af viðræðum okkar við fyrirtækið, en að sama skapi mjög mikilvægur.“

Þá er haft eftir Pieter Guldemond, sviðstjóra hjá Airbnb, að þar sé fólk ánægt með að geta komið til móts við óskir sem auðvelda gestgjöfum að leigja út heimili sín. „Með slíkri samvinnu getum við hjálpað fjölskyldum við að fylgja settum reglum, auka tekjumöguleika sína og styrkja þannig samfélagið með því að koma til móts við þá þörf sem er á fjölbreytilegu gistirými á Íslandi.“