Reykjavík norður: Já við öllu

21.10.2012 - 23:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Í Reykjavíkurkjördæmi norður sagði meirihluti kjósenda já við öllum sex spurningunum í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga í gær. Talningu atkvæða lauk á ellefta tímanum í kvöld, 22.895 greiddu atkvæði, 45.309 eru á kjörskrá, kjörsókn var því um 50,4%.

Langflestir sögðu já við spurningu tvö, hvort í nýrri stjórnarskrá eigi náttúruauðlindir að vera þjóðareign, séu þær ekki þegar í einkaeign. Þetta vilja 18.425 í Reykjavík norður, 2.205 eru andvígir þessu. 1.912 merktu ekki við þessa spurningu.

Lítill munur er hinsvegar á þeim segja já eða nei við þriðju spurningu, hvort í stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi. 10.553 eru hlynntir því, en 10.022 andvígir.

 Þá vilja 16.617 að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, 5.072 vilja það ekki. 853 tóku ekki afstöðu til þessa.

16.817 vilja rýmri reglur um persónukjör, 3.427 eru á móti því, 2.296 er sama.

Og í Reykjavík norður vilja 16.037 að atkvæði kjósenda hvarvetna á landinu hafi sama vægi, 4.090 greiddu atkvæði gegn því, 2.415 skiluðu auðu.

Þá vilja 15.529 að svo og svo margir kosningarbærir karlar og konur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, 4.496 eru andvígir því, 2.517 tóku ekki afstöðu til þessarar lokaspurningar á kjörseðlinum.

Alauðir seðlar voru 108, ógildir 245.

Katrín Theodórsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkur norður, segir sitthvað valda því að atkvæðatalning dróst í kjördæminu. Þannig sé húsnæðið til þess arna afar óhentugt í Ráðhúsi Reykjavíkur.

En ákvörðun um að telja eina spurningu í einu hafi hægt á ferlinu, oft hafi þeir sem töldu þurft að bíða með hendur í skauti eftir nýjum seðlum, í stað þess að  ljúka talningu þeirra sem þegar höfðu borist.

Talningu er lokið í öllum kjördæmum. Um tveir þriðju hlutar kjósenda vilja að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og meirihluti kjósenda játaði öllum spurningum á seðlinum og þar með tillögum stjórnlagaráðs.

Kjörsókn var tæplega 50%.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi