Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Reykjavík: Meirihlutinn heldur, en fylgi dalar

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur heldur velli og fengi 13 af 23 borgarfulltrúum í stækkaðri borgarstjórn ef niðurstöður kosninganna í vor líkjast niðurstöðum skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið á dögunum. Samkvæmt könnuninni minnkar fylgi meirihlutans þó töluvert. Það skýrist einkum af fylgishruni Bjartrar framtíðar, sem er nánast horfin af sjóndeildarhring kjósenda ef marka má þessa könnun, og merkjanlegri niðursveiflu í fylgi Samfylkingarinnar.

Það sem tryggir meirihlutanum framhaldslíf, samkvæmt könnuninni, er svo fylgisaukning Vinstri grænna og Pírata. Þriggja flokka meirihluti Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna nýtur samkvæmt þessu stuðnings 52,3 prósenta Reykvíkinga, en núverandi, fjögurra flokka meirihluti fékk 61,7 prósent atkvæða í kosningunum 2014.

Sjálfstæðisflokkur bætir við sig, hrun hjá Framsókn

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig nokkru fylgi frá síðustu kosningum, 3,4 prósentustigum, en á móti kemur að Framsókn tapar miklu fylgi og kemur ekki manni að ef þetta gengi eftir, ekki frekar en Miðflokkurinn. VIðreisn og Flokkur fólksins munu að öllum líkindum koma manni að, miðað við þessar tölur.

Niðurstöðurnar eru annars þessar: 29,1 prósent segist styðja Sjálfstæðisflokkinn, sem fengi átta menn kjörna, 25,7 prósent lýsa stuðningi við Samfylkinguna, sem fengi þá sjö borgarfulltrúa, Píratar og Vinstri græn njóta jafn mikils fylgis, 13,3 prósent segjast styðja hvorn flokk, sem gæfi þeim þrjá fulltrúa hvorum. 6,4 prósent styðja Viðreisn, sem gefur einn mann, og 4,9 prósent lýsa stuðningi við Flokk fólksins, sem einnig fengi einn fulltrúa. 2,9 prósent styðja Framsókn og flugvallarvini, 2,4 prósent Bjarta framtíð og 1,1 prósent nefnir Miðflokkinn.

Könnunin var gerð dagana 4. til 31. janúar. Úrtakið var 2.021 Reykvíkingur, 18 ára og eldri. 1.081 svöruðu könnuninni.

Fréttin hefur verið leiðrétt.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV