Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Reykjavík kemur til LA

Mynd: Carol M. Highsmith  / Wikimedia Commons

Reykjavík kemur til LA

04.04.2017 - 15:25

Höfundar

Reykjavík Festival hefst næstkomandi föstudag í Disney Hall tónlistarhöllinni í Los Angeles, þar sem glittir í fjölmargar hliðar íslensks tónlistarlífs.

Meðal listamanna sem koma fram eru Sigur Rós, Schola Cantorum, Daníel Bjarnason, Víkingur Heiðar Ólafsson, Ólöf Arnalds, Múm, Skúli Sverrisson, dj. flugvél og geimskip og listamenn sem tengjast Bedroom Community útgáfunni, svo aðeins örfáir séu nefndir. Í Víðsjá var rætt við Sigtrygg Baldursson um hátíðina og það verkefni að koma ólíkri íslenskri tónlist á framfæri við heiminn.

Upphafið í samstarfi við Daníel 

Það er Los Angeles fílharmonían sem stendur fyrir Reykjavík Festival hátíðinni en upphaf verkefnisins má rekja til þess samstarfs sem hljómsveitin hefur átt við Daníel Bjarnason tónskáld á síðustu árum. 

Það er ætlun sveitarinnar að sýna fram á þéttleikann og samstarfið sem einkennir íslenskt tónlistarlíf þvert á stefnur og strauma, hvernig samtímatónlistin er náskyld því sem er að gerast í rokki, poppi og raftónlist.

Listrænni samsuðu hátíðarinnar er stýrt af finnska hljómsveitarstjóranum Esa-Pekka Salonen and Daníel Bjarnasyni en ætlun þeirra er að draga fram sköpunarkraftana í íslensku tónlistarlífi. 

Fjölmörg íslensk tónskáld eiga tónlist á hátíðinni og fríður flokkur flytjenda frá Íslandi kemur þar fram.

Músin fyrst á svæðið 

Það var íslenska tónlistarmúsin Maximus Musicus sem mætti fyrst á svæðið en tónleikar með henni og tónlistarmönnum Los Angeles fílharmoníunnar fóru fram um síðustu helgi. Formlegt opnunarkvöld hátíðarinnar verður laugardaginn 8. apríl en daganna þar á eftir koma tónleikarnir í röðum. Hjartað í dagskránni eru þrjú kvöld þar sem hljómsvetin Sigur Rós kemur fram ásamt Los Angeles fílharmoníunni og fjölmörgum íslenskum og erlendum listamönnum. 

epa05481680 (L-R) Georg Holm, Orri Pall Durason and Jonsi Birgisson perform during the concert of the Icelandic post-rock band Sigur Ros at the 24th Sziget Festival, in Budapest, Hungary, 13 August 2016. The festival, which runs from 10 to 17 August, is
 Mynd: EPA - MTI

Hátíðin teygir anga sína víða um þessa miklu borg en dagskráin er geysilega fjölbreytt. Allar upplýsingar má finna hér en viðtal við Sigtrygg Baldursson, framkvæmdastjóra Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, um hátíðina má heyra í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Íslensk tónlist í brennidepli í Los Angeles