Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Reykjavík guluð í þágu bætts aðgengis

23.06.2017 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd: Blindrafélagið samtök blindra - Facebook
Hópur ungs fólks í skærgulum bolum gengur um borgina í dag, tekur myndir og skráir hjá sér staði sem eru blindum og sjónskertum hættulegir. Marjakaisa Matthíasson, alþjóða- og deildafulltrúi Blindrafélagsins, segir að margir staðir geti verið blindum hættulegir. Á morgun verði farið á þá staði sem koma illa út í könnunarleiðangrinum í dag.
Mynd með færslu
 Mynd: Blindafélagið - Facebook

Hópurinn leggur af stað klukkan tíu og verður að til klukkan eitt í dag. Farið verður í Hörpu, ráðhúsið, miðbæinn og Hlíðar. Marjakaisa segir að staðirnir sem staldrað verði við, fái miða með gulum þumli. Þá verði tekin mynd og henni deilt á samfélagsmiðlum með #yellowreykjavik og #yellowtheworld. Á morgun verði svo farið á þá staði sem reyndust vera slæmir fyrir blinda. Þeir verði merktir með gulu límbandi og gulri krít, því ekki hafi fengist leyfi til þess að mála þá gula. Eftir þetta verði svo sent bréf til borgaryfirvald og til Hörpu. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Marjakaisa segir að illa merktar tröppur séu blindum hættulegar, til dæmis séu stóru tröppurnar í Hörpu. Þá séu alls kyns misfellur á gangstéttum og gólfi hættulegar, sem og skilti sem séu of neðanlega og lágir stólpar sem eru í sama lit og gangstéttin. Sem dæmi um þetta nefnir Marjakaisa stólpa við Reykjavíkurtjörn sem loki fyrir umferð ökutækja. „Það er mjög mikil hætta á að fólk sjái þetta ekki, detti og meiði sig,“ segir Marjakaisa.

Hún hvetur fólk til þess að fylgjast með Instagram-síðunni Ungblind og að taka myndir af hættulegum stöðum og deila þeim með myllumerkinu #yellowreykjavik.

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay

Marjakaisa segir að bæði Reykjavíkurborg og stjórnendur Hörpu hafi tekið mjög vel í verkefnið. Hún sé bjartsýn á að brugðist verði við athugasemdunum.

Í fyrra fór hópurinn í Háskóla Íslands og merkti staði. Verkefninu er ætlað að vekja alla til umhugsunar um hvað aðgengi skiptir blinda og sjónskerta miklu máli, segir Marjakaisa.