Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Reykingar kosta skattgreiðendur tugi milljarða

Maður kveikir sér í sígarettu.
 Mynd: Pixabay
Íslendingar svældu 25 tonn af sígarettum í fyrra. Reykingar kosta hvern einasta skattgreiðanda á Íslandi tugi, jafnvel hundruð þúsunda á ári hverju. Þjóðhagslegur kostnaður vegna þeirra nemur tugum milljarða á ári, allt að því 3,8% af landsframleiðslu. Árið 2015 létust um 370 Íslendingar vegna beinna og óbeinna reykinga. Það samsvarar fimmtungi allra dauðsfalla það ár. Tíðni reykinga og sjúkdóma tengdum þeim hefur þó lækkað á síðastliðnum árum.

Þetta sýna fyrstu niðurstöður rannsóknar sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinnur að fyrir Landlæknisembættið og Krabbameinsfélagið. Þær voru kynntar á Tóbaksvarnarþingi í Hörpu í dag. Markmiðið með rannsókninni er að meta hver þjóðhagslegur kostnaður sígarettureykinga var á Íslandi árið 2015. Það er erfitt að segja nákvæmlega fyrir um hver hann er, en hann er samkvæmt rannsókninni einhvers staðar á bilinu frá 17 milljörðum og upp í 85. 

Mest munar um sjúkrahússinnlagnir og reykingapásur

Mynd með færslu
 Mynd: Hagfræðistofnun
Kostnaður í milljónum króna.

Heilbrigðiskostnaðurinn vegur þyngst, nemur 8-10 milljörðum króna, mest munar þar um kostnað vegna innlagna á sjúkrahús. Við bætist svo óáþreifanlegur kostnaður vegna minni framleiðni reykingamanna. Þar vega reykingapásur þyngst en veikindadagar telja líka. Þessi kostnaður er talinn nema 5,8 milljörðum króna. Kostnaður vegna tóbaksvarna bliknar í stóra samhenginu, hann nemur um 120 milljónum á ári.

Fjárhagslegur ávinningur af því að upplýsa neytendur

Það er erfitt að segja nákvæmlega fyrir um hver kostnaður hvers skattgreiðanda er en hann er samkvæmt rannsókninni einhvers staðar á bilinu frá 54 þúsund krónum á skattgreiðanda upp í 260 þúsund krónur. Það sem skiptir mestu, þegar kemur að því að áætla þennan kostnað er hversu vel upplýstir neytendur eru um skaðsemi þeirra. Rannsakandinn, Jónas Atli Gunnarsson, segir að kostnaðurinn sé metinn út frá sjónarhóli neytenda, ekki kerfisins. 

„Við erum ekki neydd til þess að reykja og vitum að það mun kosta okkur nokkur ár af lífi okkar. Við byrjum samt að reykja. Þá hlýtur okkur að finnast betra að reykja og lifa styttra en að reykja ekki." 

Ef einstaklingurinn er fullkomlega upplýstur um skaðsemi reykinga, er ályktað sem svo að hann líti ekki svo á að hann tapi á því að reykja. 

„Þjóðfélagslegur kostnaður er ekkert annað en samanlagður einstaklingskostnaður. Það sem við erum að reyna að mæla er hversu mikið virði líf manns er og hversu mikill kostnaður það er fyrir mann sjálfan að missa lífsgæði sín, að verða öryrki."

Hann segir kostnað neytandans meiri ef hann er ekki upplýstur. 

„Vegna þess að hann gerir ráð fyrir því að lifa jafn lengi og aðrir en svo deyr hann fyrir aldur fram og það er kostnaður."

Bein orsakatengsl við 17 gerðir krabbameina

Mynd með færslu
 Mynd: net
krabbameinsfruma.

Bein orsakatengsl eru á milli reykinga og ýmissa sjúkdóma. Reykingar auka líkur á kransæðasjúkdómum og langvinnri lungnateppu. Þær geta orsakað um 17 undirtegundir krabbameina. Helst ber að nefna krabbamein í lungum, barka og berkjum. Nýlega hefur verið sýnt fram á tengsl við krabbamein í brisi, ristli, lifur og leghálsi. Nýjar rannsóknir sýna einnig fram á tengsl reykinga við aldursbundna hrörnun í augnbotnum og sykursýki. Við þetta má svo bæta að reykingar veikja ónæmiskerfi fólks, gera það berskjaldaðra fyrir ýmsum sýkingum. 

Krabbamein orsakar helming reykingatengdra dauðsfalla 

Árið 2015 létust um 370 Íslendingar vegna beinna og óbeinna reykinga. Það samsvarar fimmtungi allra dauðsfalla það ár.  Krabbamein orsaka um helming allra reykingatengdra dauðsfalla. 

„Lungnakrabbamein er lang, langstærst, bæði hvað varðar nýgengi og dánartíðni."

Segir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands. Skaðsemi reykinga er óumdeild og þökk sé tóbaksvarnaherferðum liðinna ára vita það flestir, reykingamenn kannski manna best. Tíðni reykinga hefur minnkað verulega. Nú reykja um 12% fullorðinna Íslendinga daglega. Það er næstlægsta hlutfallið í Evrópu. Það er lægst í Svíþjóð. Reykingar fóru að aukast hér á árunum fyrir og eftir seinna stríð. 

„Karlarnir byrja að reykja langt á undan konum og þeir eru farnir að reykja dálítið upp úr 1950 og svo eykst tíðnin jafnt og þétt. Konurnar koma inn svona upp úr stríðinu. Þeir eru alltaf með hærri reykingatíðni þangað til svona á síðustu tíu árum, þá hefur þetta verið álíka hjá körlum og konum."

Helmingur fullorðinna reykti 

Rettan sló í gegn. Í kringum 1970 reykti helmingur fullorðinna hér á landi. Gröf Krabbameinsfélagsins sýna hvernig tíðni lungnakrabba jókst jafnt og þétt á árunum eftir 1950. Árið 1960 greindust 12 karlar  af hverjum 100 þúsund körlum með lungnakrabba. Árið 1985 greindust þrefalt fleiri, 36 af hverjum hundrað þúsund. 

„Karlarnir eru með hærra lungnakrabbameinsnýgengi miklu fyrr og það eykst jafnt og þétt þar til snemma á níunda áratugnum, þá hættir það að aukast hjá körlum." 

Nýgengi meðal kvenna hefur ekki náð sömu hæðum og nýgengi meðal karla. Árið 1960 greindust sex af hverjum hundrað þúsund konum með lungnakrabbamein. Hæst varð hlutfallið árið 2008 þegar 34 af hverjum 100 þúsund konum á Íslandi greindust með lungnakrabba.

Fyrri myndin sýnir þróun hjá konum frá 1953, sú síðari sýnir þróun hjá körlum. Rauða línan sýnir nýgengi lungnakrabbameins og sú græna sýnir dánartíðni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Krabbameinsfélagið
Mynd með færslu
 Mynd: Krabbameinsfélagið

Þriðjungur unglinga reykti

Lungnakrabbamein getur verið einkennalaust árum saman og uppgötvast oft ekki fyrr en á síðari stigum. Það byrjar kannski ekki að myndast fyrr en reykt hefur verið árum eða áratugum saman. Tölurnar endurspegla þetta. Laufey segir að tóbaksvarnir hafi haft áhrif. 

„Reykingavarnir hefjast af krafti á Íslandi 1975, hjá Krabbameinsfélaginu. Það er gert þannig að það er farið inn í skólana því á þessum tíma reykti þriðjungur krakka á aldrinum 12 til16 ára. Þetta var alveg með ólíkindum. Þetta fór að bera árangur eftir þrjú ár. Jafnt og þétt lækkaði reykingatíðnin hjá krökkunum og var komin niður í tvö prósent árið 2013 og hún lækkaði líka mjög mikið hjá fullorðna fólkinu. Við sjáum árangurinn í því að nýgengið hætti að aukast. Það fór að lækka núna nýgengið og dánartíðnin síðustu tíu, fimmtán árin í stað þess að halda áfram að hækka jafnt og þétt. Tóbaksvarnir hafa sparað gífurlega mörg mannslíf en við erum enn með fortíðarvanda því þeir sem hætta að reykja, sérstaklega á efri árum, sitja uppi með dálítið mikla áhættu áfram." 

Tíðnin fer lækkandi og mun að sögn Laufeyjar lækka áfram haldi reykingatíðnin áfram að lækka. Það er þó ekki útlit fyrir að hún verði jafnlág og hún var í kringum miðja síðustu öld, ekki alveg á næstunni. 

„Ef okkur tekst að losa okkur við reykingar þá mun það gerast en það mun taka einhverja áratugi í viðbót, það er alveg öruggt." 

Því fyrr sem fólk hættir, því meiri er ávinningurinn.

„Ef þú hættir fyrir 35 ára aldur ertu ekki með aukna áhættu á að fá krabbamein af völdum reykinga og ef þú hættir fyrir 45 ára er áhættan lítillega aukin. Ef þú hættir um sextugt situr þú uppi með einhverja áhættuaukningu áfram, út lífið, en það lækkar alltaf áhættan hvenær sem þú hættir, það borgar sig alltaf."

Rannsóknin tekur einungis til sígarettureykinga

Mynd með færslu
 Mynd: rúv - rúv
Munntóbaksala í hæstu hæðum.
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Lára G. Sigurðardóttir og Laufey Tryggvadóttir.

Rannsókn Hagfræðistofnunar tekur ekki til kostnaðar vegna munntóbaks-notkunar, einungis sígarettureykinga. Ungmenni hafa að mestu snúið baki við hefðbundnum sígarettum en munntóbaksnotkunar hefur aukist. Næstum fjórði hver karlmaður á aldrinum 18-24 ára notar munntóbak í dag. Hægt er að líta til tóbakssölu ÁTVR. Árið 2005 seldi ÁTVR tæplega 15 tonn af munntóbaki, í fyrra voru seld 40 tonn. Þegar kemur að sígarettusölu hefur þróunin verið öfug. Árið 2005 voru seld tæplega 40 tonn af sígarettum, árið 2016 voru tonnin 25. En hvaða áhrif hefur þessi stóraukna munntóbaksnotkun? Lára G. Sigurðardóttir er læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins:

„Það er svolítið erfitt að segja til um það núna því það er bara á undanförnum síðustu árum sem við erum að sjá að notkun hefur aukist gríðarlega. Líkt og með rannsóknir á reykingum þá tekur áratugi, jafnvel hálfa öld að staðfesta sambönd við hinar og þessar tegundir krabbameina. Þó hefur verið gefin út yfirlýsing af Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnuninni um að munntóbak eykur hættu á krabba í munnholi, briskirtli og vélinda. Nýlega var svo birt stór rannsókn sem var gerð á Norðurlöndunum í samstarfi við Harvard sem sýndi að munntóbak eykur lítillega hættu á krabbameini í blöðruhálskirtli, þá illvigum meinum. En í samanburði við reykingar eru kannski ekki jafnmörg tilfelli sem hægt er að rekja til munntóbaksnotkunar en þú veist aldrei hver það er sem fær krabbamein og hver ekki. Það spila þarna inn í erfðir og aðrir umhverfisþættir. Það er alltaf betra að sleppa þessu, ekki taka einhverja áhættu."

Sömuleiðis segir hún að það verði að bíða í nokkur ár þar til hægt er að segja til um það með vissu hvort rafrettur auki líkur á krabbameini. 

Næstu skref í baráttunni: Skattlagning og minnkað aðgengi? 

En hvaða skref telur Lára æskilegt að stíga næst í baráttunni? 

„Það eru til nokkrar viðurkenndar leiðir sem hefur sýnt sig að draga úr tóbaksnotkun. Ein af þeim er skattlagning á tóbak. Það hefur talsverð áhrif, 10% hækkun á verði skilar sér í 4% lægri reykingatíðni. Svo er það aðgengi, hversu aðgengilegt tóbak er. Ég tel að við getum fækkað útsölustöðum hér, takmarkað leyfin til að selja tóbak. Svo eru það auglýsingar, við þurfum að passa að það sé ekki glansmynd í kringum það að reykja, eins og stundum er gert í kvikmyndum."

Hún vill einnig efla úrræði og auka aðgengi að meðferð, það hafi sýnt sig að þeim gangi betur að hætta sem fái hjálp við það. 

„Reyksíminn, sem dæmi, það er kannski ekki nógu mikið vísað á hann. Svo má skoða hvort það séu aðrar leiðir sem við getum eflt hér á landi, gert aðgengilegri."

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV