Reykingar hættulegri en áður var talið

29.10.2012 - 09:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Konur sem hætta að reykja geta lengt líf sitt um tíu ár eða meira. Niðurstöður nýrrar breskrar rannsóknar sýna að hættan sem reykingar valda er meiri en talið var og að aldrei sé of seint að hætta að reykja.

Rannsóknin stóð í 12 ár og  náði til 1,3 milljóna kvenna. Þær voru á aldrinum 50 til 65 ára að meðaltali. 20 prósent kvennana reyktu, 28 prósent voru fyrrverandi reykingamenn og 52 prósent höfðu aldrei reykt.

Í ljós kom að hættan á að deyja næstu níu árin var þrisvar sinnum meiri hjá konu sem hélt áfram að reykja en konu sem hafði hætt. Vísindamenn við Oxford háskóla sem stýrðu rannsókninni segja að helsta niðurstaðan sé sú að reykingar séu hættulegri en menn hafa haldið til þessa og ávinningurinn við að hætta sé miklu meiri en menn hafi vitað til þessa.

Reykingar eru orsök tveimur af hverjum þremur dauðsföllum hjá reykingamönnum á aldrinum 50 til 70 ára. Reykingamaður sem hætti áður en hann verður miðaldra bætir að meðaltali tíu árum við líf sitt með því.