Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Réttargæslumaður segir dóminn koma á óvart

30.07.2018 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Sævar Þór Jónsson, réttargæslumaður eins þeirra sem kærðu karlmann á fimmtugsaldri fyrir kynferðisbrot, segir að dómurinn komi á óvart. Karlmaðurinn var sýknaður af þrettán ákæruliðum í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Hann var ákærður fyrir brot gegn fimm einstaklingum.

Dómurinn hefur ekki enn verið birtur opinberlega og því hafa fjölmiðlar enga vitneskju fengið um forsendur fyrir niðurstöðunni. En Sævar Þór segir að vitnisburður umbjóða síns hafi verið metinn trúverðugur. „Þetta vekur upp margar spurningar nú,“ segir hann. 

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að samkvæmt dómnum skuli allur sakarkostnaður, sem samtals er um 25 milljónir króna, greiddur úr ríkissjóði.

Karlmaðurinn sem um ræðir hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því í janúar. Hann starfaði sem stuðningsfulltrúi á heimili fyrir unglinga á vegum Reykjavíkurborgar þangað til lögreglurannsókn á málinu hófst. Hann hefur alltaf neitað sök í málinu.