Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Réttað yfir Agnesi og Friðriki á nýjan leik

22.05.2017 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ferðastiklur - RÚV
Réttarhöldin sem enduðu með aftöku Agnesar Magnúsdóttur og Friðriks Sigurðssonar, verða endurvakin í haust með alvöru dómurum, verjendum og saksóknara. Stuðst verður við upprunaleg dómsskjöl úr málinu frá 1830, en málið rakið með nútímaréttarfari.

Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu 12. janúar 1830. Þau voru dæmd fyrir morð. Saga þeirra hefur verið skráð í máli og myndum, nú síðast í bók Hönnu Kent, Náðarstund, sem þýdd hefur verið á 31 tungumál og er á leið á hvíta tjaldið. 

Eyrún Ingadóttir, framkvæmdastjóri Lögfræðingafélagsins, sem er frá Hvammstanga, fékk þá hugmynd að rýna í söguslóðirnar með félagsmönnum, fara í vettvangsferð og endurvekja síðan réttarhöldin yfir Agnesi og Friðriki með nútímaréttarfari. Stuðst verður við upphafleg dómsskjöl úr málinu og fleiri greiningar sagnfræðinga og lögfræðinga. 

Þær Eyrún og Kolbrún Sævarsdóttir, héraðsdómari og einn af dómurunum í réttarhöldunum, sem verða í september í félagsheimilinu á Hvammstanga, voru gestir Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. 

„Það var svolítið fróðlegt að lesa yfirheyrslurnar. Það voru knappar spurningar og bara frá rannsakandanum, Birni Blöndal. Og það virtist lítið verið farið í að spyrja: Af hverju gerðir þú þetta? Ásetninginn. Það var bara gefið út að það væri þjófnaður,” segir Kolbrún. Eyrún tekur undir þetta. 
„Það er mjög áhugavert að lesa þetta sem leikmaður og því maður veltir fyrir sér: „Af hverju spyr hann ekki um þetta eða hitt?” Það kemur ekkert fram. Svo margt sem maður hefði haldið að ætti að koma fram. Bara ástæðuna fyrir þessu,” segir Eyrún. 

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sækir málið, Guðrún Sesselja Arnardóttir og Gestur Jónsson verja Agnesi og Friðrik og tveir dómarar, auk Kolbrúnar, dæma, þau Ingibjörg Benediktsdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómari við mannréttindadómstólinn í Strassborg. 

„Það virðist sem dómarnir verði mildaðir,” segir Kolbrún. „Og svo hefur hegningarlögunum að einhverju leyti verið breytt. Það er ekki þetta meinsæri, það er til það sem heitir yfirhylming, en að vita að eitthvað hafi verið framið er ekki refsivert.” 

 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður