Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Réttað í máli Abdeslams í dag

05.02.2018 - 06:13
Mynd með færslu
Saleh Abdeslam. Mynd: EPA
Réttarhöld yfir hryðjuverkamanninum Salah Abdeslam hefjast í Brussel í dag. Hann er síðasti eftirlifandi árásarmaðurinn eftir hryðjuverkaárásina í París 2015.

Abdeslam var handtekinn í Brussel í Belgíu í mars 2016. Mikið gekk á áður en hann var handtekinn, og stóð lögregla í skotbardaga þar sem þrír lögreglumenn særðust og hryðjuverkamaður var felldur. Sjálfur flúði Abdeslam og var handtekinn nokkrum dögum síðar. Hann er ákærður fyrir tilraun til morðs á nokkrum lögreglumönnum í tengslum við hryðjuverk, og fyrir að hafa í fórum sínum ólögleg vopn sem nota átti til hryðjuverka. Hann á yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsi verði hann fundinn sekur. Síðar verður réttað yfir Abdeslam í París vegna hlutdeildar sinnar í hryðjuverkaárásinni 2015 þar sem 130 biðu bana. 

Abdeslam hefur neitað að tala við lögreglu frá því hann var handtekinn. Hann krafðist þess þó að fá að vera viðstaddur réttarhöldin, en talið er að þau taki um fjóra daga. 

Mikil leynd hvílir yfir ferðalagi Abdeslams frá fangelsinu í norðurhluta Frakklands yfir til Brussel. Þar hefur hann verið í einangrun í nærri 20 mánuði þar sem myndavélar fylgja honum hvert fótmál allan sólarhringinn.

Abdeslam er grunaður um að hafa ekið bíl hryðjuverkamannanna í París. Bróðir hans var einn sjálfmorðsárásarmannanna í þeirri árás. Fjöldi hryðjuverkamanna framdi sjálfsmorðsárásir, og aðrir gerðu skotárásir á almenning í tónleikahúsinu Bataclan, auk fjölda veitingastaða, kráa og við þjóðarleikvanginn Stade de France 13. nóvember 2015.