Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Rétt ákvörðun að heimila Kárahnjúkavirkjun

13.03.2013 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, telur að það hafi verið rétt ákvörðun hjá sér að heimila Kárahnjúkavirkjun, þrátt fyrir neikvæð umhverfisáhrif.

Skipulagsstofnun lagðist gegn virkjuninni á sínum tíma og taldi umhverfisáhrif af virkjuninni vera veruleg en Siv sneri úrskurðinum við. Fram hefur komið hjá vísindamönnum að virkjunin hafi haft veruleg áhrif á lífríkið í Lagarfljóti og nú sé stór hluti silungastofnsins í fljótinu horfinn.

Kárahnjúkavirkjun er vafalítið ein umdeildasta framkvæmd sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Nú er komið í ljós að virkjunin hefur haft veruleg áhrif á lífríki Lagarfljóts og allt að 80% af silungi í fljótinu eru horfin.

Skipulagsstofnun lagðist gegn virkjuninni á sínum tíma. Í tæplega 300 blaðsíðna úrskurði komst stofnunin að því að „Kárahnjúkavirkjun myndi hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin mun fyrirsjáanlega hafa.“

Umhverfisáhrifin vörðuðu „sérstaklega Hálslón og veitu Jökulsár á Dal til Jökulsár í Fljótsdal/Lagarfljóts. Framkvæmdir við fyrri áfanga virkjunarinnar munu raska tegundum sem eru sjaldgæfar á svæðis- og landsvísu og þær munu breyta skilyrðum fyrir lífríki í vötnum.“

Það var varað við þessu á sínum tíma. Er ekki ljóst að menn hlustuðu ekki á viðvaranir? „Við skoðuðum þessa framkvæmd mjög vel á sínum tíma,“ segir Siv. „Það voru mikil gögn sem lágu til grundvallar okkar úrskurði og þegar við vorum búin að fara yfir þau ákváðum við að það væri rétt að heimila þessa framkvæmd á grundvelli tuttugu skilyrða um ákveðnar mótvægisaðgerðir. Og eitt þessara skilyrða laut sérstaklega að rennslinu í Lagarfljóti og aurnum og gekk út á það að minnka klapparhaftið fyrir ofan Lagarfljótsvirkjun til að minnka áhrifin. Við vissum að þau yrðu en töldum að þau yrðu ekki það mikil að þau myndu kollvarpa niðurstöðu úrskurðarins.“

En nú virðist vera komið í ljós að þau hafi einmitt þvert á móti verið veruleg. Breytir það engu um þína afstöðu eftir á að hyggja, telurðu enn að þetta sé rétt ákvörðun? „Ég tel að þetta sé rétt ákvörðun,“ segir Siv.