Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rétt að banna akstur minni bíla á fjallvegum

02.09.2018 - 19:57
Yfirlögregluþjónn telur rétt að banna akstur minni fólksbíla yfir sumar jökulár og á ákveðnum fjallvegum. Þá þurfi að bæta merkingar og hafa varúðarskilti á fleiri tungumálum.

Tíunda banaslysið í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi á þessu ári varð þegar kona drukknaði í Steinsholtsá í fyrradag. Konan var ásamt eiginmanni sínum á leið í Þórsmörk.

Til þess að komast inn í Þórsmörk þarf að fara yfir margar misstraumharðar ár. Stuttu eftir að komið er inn á malarveginn er ekið fram hjá skilti þar sem er útlistað hvað beri að varast þegar farið er yfir vaðið, og bent á að leiðin sé einungis fær fjórhjóladrifnum bílum.  Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, bendir á að smábílar geti líka verið fjórhjóladrifnir. „Það að segja að fjórhjóladrifinn bíll er nóg, segir afskaplega lítið fyrir ferðamanninn.“

„Jökulár eru hættulegar“

Á næsta skilti eru mun minni upplýsingar. Við Steinsholtsá er svo annað varúðarskilti, en þó spölkorn frá vaðinu, enda áin síbreytileg. Fleiri eru skiltin ekki á þessari leið. „Merkingar, upplýsingar, upplýsingaskilti þurfa bara að vera miklu greinilegri, þau þurfa að vera á fleiri tungumálum og verja skiljanlegri, af því að þessi svæði eru hættuleg,“ segir Sveinn Kristján. „Jökulár og þessar óbrúuðu ár eru bara hættulegar.“

Á leið okkar að Steinsholtsá hittum við misvana ökumenn. Þeir ferðamenn sem við ræddum við töldu sig hafa fengið góðar upplýsingar um hvernig aka skuli yfir ár. Svo voru aðrir sem lentu í vandræðum. 

Sveinn Kristján segir mjög algengt að fólk skorti þekkingu á aðstæðum og bregðist rangt við. Þá aki fólk gjarnan of hratt yfir vaðið. „Jökulá er síbreytileg. Hún getur breyst á klukkutíma fresti og hún er að bera aur og grjót niður ána allan daginn,“ segir Sveinn Kristján. Á sem er auðfarin að morgni geti verið illfær að kvöldi. „Sem betur fer eru fá alvarleg slys, en við erum alltaf með þessi stóru tjón, þetta er gríðarlega mikið tjón þegar bílarnir fara í árnar. Maður vill kannski ekki tala fyrir endalausum bönnum, en ég held að á mörgum þessum vegum ættum við hreinlega að fara í bönn á ákveðna bíla.“

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV