Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Repúblíkanar með meirihluta í öldungadeild

05.11.2014 - 04:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Repúblikanar hafa náð meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings samkvæmt spá CNN-sjónvarpsstöðvarinnar. Þeir þurftu að bæta við sig sex sætum og hafa þegar unnið sigur í Norður-Karólínu, Iowa, Arkansas, Vestur-Virginíu, Montana, Colorado og Suður-Dakóta.

Repúblikanar eru því þegar komnir með fimmtíu og tvö sæti af eitt hundrað í deildinni - en voru með fjörutíu og fimm.  Baráttan er æsispennandi í Virginíu og sigur repúblikana gæti orðið enn stærri. Spár gera ráð fyrir því að repúblíkanar auki meirihluta sinn í fulltrúadeildinni og stjórni þar með á báðum vígstöðvum í fyrsta sinn síðan 2006. Það mun gera Barack Obama Bandaríkjaforseta erfitt fyrir að koma málum í gegnum þingið en fréttaskýrendur segja óvinsældir hans helstu ástæðu ósigurs demókrata.

Það kom líka fram í máli stuðningsmanna repúblikana sem fréttastofan ræddi við í nótt - þeir segja að með þessari niðurstöðu sé verið að senda forsetanum skýr skilaboð. Kosið var um rúmlega þriðjung sæta í öldungadeildinni og alla fulltrúadeildina. Repúblikanar eru líka að vinna góða sigra í baráttunni um ríkisstjóraembætti.