Anna Þóra segir að það hafi lengi verið draumur hennar að flytja til útlanda og hjálpa fólki. Fyrst fór hún sem sjálfboðaliði til Kenýa og vann sem sjálfboðaliði á heimili fyrir yfirgefin ungabörn. „Eftir það var ekki aftur snúið. Ég bara varð að fara aftur og gera eitthvað meira,“ sagði hún í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Algengt að fjölskyldur vísi ungum mæðrum að heiman
Anna Þóra ætlaði sér í fyrstu að opna heimili fyrir yfirgefin ungabörn, enda hélt hún að það væri mikil þörf á því. Hún áttaði sig þó fljótlega á því að auðvelt væri að gera eitthvað fyrir foreldra ungabarna í erfiðri stöðu þannig að þeir þyrftu ekki að láta börn sín frá sér. „Þá kom upp þessi hugmynd að hjálpa þessum ungu mæðrum.“
Tvö ár tók að undirbúa opnun á heimilinu og þar búa nú sex unglingsstúlkur með börn sín. Anna Þóra segir að staða mæðra á unglingsaldri í Kenýa sé mjög erfið. Þeim sé oft vísað að heiman og þær einar látnar bera ábyrgð á barninu og framfærslu þess. „Þær þurfa að hætta við öll sín framtíðarplön og bara fara að vinna, oft er það að þvo þvott fyrir 200 krónur á dag. Það er ekkert meira í boði fyrir þær.“ Framtíð stúlkna sem eignist börn ungar sé því almennt ekki björt. Á heimilinu sem Anna Þóra rekur fá þær tækifæri og geta lokið grunnskóla og haldið áfram að mennta sig.
Fylgjendur á Snapchat veita dyggan stuðning
Það kostar sitt að reka slíkt heimili. Anna Þóra ákvað að opna Snapchat-reikninginn sinn þegar hún opnaði heimilið og þar má sjá fréttir af daglegu lífi á heimilinu. „Ég rek heimilið á Snapchat, fylgjendur mínir eru þeir sem reka heimilið í dag.“ Heimilið rekur hún ásamt vinkonu sinni frá Kenýa. Til að láta reksturinn ganga upp taka þær við frjálsum framlögum auk þess sem hópur fólks styrkir starfið mánaðarlega.