Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Rekur ástand hússins til skorts á viðhaldi

26.08.2017 - 19:46
Fjölmörg mistök virðast hafa verið gerð við byggingu höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur, að því er fram kemur í nýlegri skýrslu verkfræðistofu, sem hefur rannsakað upptök vatnsleka í húsinu. Fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar telur að rekja megi ástand hússins til skorts á viðhaldi.

Vesturhús höfuðstöðva Orkuveitunnar er ónothæft og heilsuspillandi og var rýmt að fullu í maí, eftir heilsubrest starfsmanna vegna raka og myglu. Orkuveitan tilkynnti í gær að það kosti fyrirtækið rúma sautján hundruð milljónir króna hið minnsta að lagfæra húsið, sem er fimmtán ára gamalt, en kostnaður fyrirtækisins, meðal annars vegna sérfræðiráðgjafar og tilraunaviðgerða, nemur 460 milljónum króna í dag.

Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar, harmar ástand hússins, en telur að rekja megi ástand þess til skorts á viðhaldi vegna sparnaðaraðgerða Orkuveitunnar eftir hrun.

„Skorts á viðhaldi og að bregðast ekki við,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu. „Ég skoðaði þetta nú aðeins eftir að þú hringdir í mig og mér er sagt að menn hafi vitað að húsið lak 2009 og  þá hafi strax verið farið í það að þétta það að einhverju leyti, en ekki verið til fé til þess að halda því verki áfram.“ Þannig telur Guðmundur að sparnaðaraðgerðir Orkuveitunnar eftir hrun hafi komið niður á viðhaldi hússins.

Fjölmargir ágallar við uppsetningu útveggjar

Orkuveitan fól verkfræðistofunni Eflu að rannsaka upptök vatnsleka í húsinu. Í því skyni var meðal annars gert ástandsmat á austurvegg hússins í maí 2016. Í nýlegri skýrslu stofunnar koma fram margskonar ágallar á uppsetningu útveggjarins; pressulistar hafi verið óþéttir, skrúfur of langar, plötur fyrir innan klæðningu ýmist ekki nægjanlega þykkar, langar eða breiðar, samskeyti platnanna óþétt, að innri og ytri pakkningar hafi ekki náð saman á hornum, lekar hafi verið í kverkum, gleri, og með opnanlegum fögum, og þá hafi frágangur dúks verið ófullnægjandi þannig að vatn komst auðveldlega á bak við hann og áklæðningin óþétt og ekki vatnsheld.

Guðmundur segist ekki muna hver hafi haft eftirlit með byggingaframkvæmdum fyrir Orkuveituna. Þá hafi honum ekki verið kunnugt um vankanta við byggingu hússins. 

„Ég hef allavega ekki heyrt það að plötur pössuðu ekki. Það hlýtur þá að hafa verið eitthvað sérstakt og einhvern veginn brugðist við því. Enginn setti upp lekar plötur viljandi, ég held að það sé nokkuð ljóst,“ segir Guðmundur. „Við berum náttúrulega ábyrgð á því að húsið var byggt og svo sannarlega byggðum við það ekki þannig að það læki. Ekki með það í huga.“

Ljóst er að milljarðakostnaður við viðgerð hússins lendir á Orkuveitunni og þannig viðskiptavinum fyrirtækisins. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir upphæðirnar koma á óvart í samtali við fréttastofu í dag, en nú er beðið eftir að dómkvaddur matsmaður leggi mat á tjónið áður en næstu skref verða tekin.