Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rekinn frá ON eftir óviðeigandi hegðun

13.09.2018 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: ON
Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, hefur verið rekinn vegna óviðeigandi framkomu hans gagnvart samstarfsfólki sínu. Fram kemur í tilkynningu frá Orku náttúrunnar að Þórður Ásmundsson hafi verið ráðinn tímabundið til að taka við starfi Bjarna.

Ekki kemur fram hvers konar hegðun Bjarni sýndi starfsfólki fyrirtækisins en fram kemur í tilkynningunni að það hafi verið „tekið alvarlega af stjórn Orku náttúrunnar.“ Bjarni Már var ráðinn framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, í nóvember fyrir tveimur árum. 

Einar Bárðarson, umboðsmaður, skrifaði færslu á Facebook í gær þar sem hann ræddi um forstjóra sem liti framhjá óviðeigandi hegðun framkvæmdastjóra síns. Samkvæmt heimildum fréttastofu er viðkomandi forstjóri Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, og framkvæmdastjórinn Bjarni Már Júlíusson. 

Einar sagði forstjórann hafa fundist í lagi að framkvæmdastjóri á hans vakt sendi klámfengna tölvupósta á kvenn-undirmenn sína á laugardagskvöldum, kalli þær járnfrúr, frekjur og pempíur, grýlur. „Þessum forstjóra fannst svo í lagi að reka eina þessara kvenna sem hefur ítrekað gert athugasemdir við þessa framkomu hans við starfsmannastjóra forstjórans. Karlstjórnandinn, gerandinn, heldur starfi sínu áfram og réttlætir þessi forstjóri það fyrir mér með því að viðkomandi karlstjórnandi væri að skila svo góðum niðurstöðum í rekstri.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV