Reitti Trump til reiði og gagnrýndi sigurmynd

Mynd með færslu
 Mynd:

Reitti Trump til reiði og gagnrýndi sigurmynd

25.02.2019 - 15:20

Höfundar

Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Spike Lee stal senunni eftir Óskarsverðlaunahátíðina í nótt. Ekki bara tókst honum að móðga Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, heldur lýsti hann líka frati á þá ákvörðun bandarísku Akademíunnar að velja Green Book sem mynd ársins.

Leikstjórinn hlaut í nótt sín fyrstu Óskarsverðlaun en hann fékk þau fyrir handritið að kvikmyndinni BlacKkKlansman. Kvikmyndir leikstjórans hafa oftar en ekki fjallað um stöðu blökkumanna í Bandaríkjunum. Og hann var mjög ósáttur þegar kvikmynd hans, Do the Right Thing, var ekki tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 1989. 

Lee hlaut heiðursverðlaun akademíunnar fyrir þremur árum og var því skiljanlega sáttur þegar Samuel L. Jackson tilkynnti að hann hefði unnið verðlaunin ( Jackson hefur sagt að hlutverkið sem hann fékk í kvikmynd Spike Lee, Jungle Fever, hafi breytt ferli hans). Leikstjórinn mætti upp á svið með handskrifaða ræðu og var augljóslega mikið niðri fyrir. Hann gerði þrælahald að umtalsefni og rifjaði upp að amma móður hans hefði verið þræll. Þá brýndi hann Hollywood til góðra verka í forsetakosningunum á næsta ári, bað stjörnurnar um að vera réttum megin og velja ást fram yfir hatur. „Gerið það rétta,“ sagði Spike Lee.

Það er ekkert leyndarmál að Spike Lee er ósáttur við stefnu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, og í BlacKkKlansman er myndskeið af átökunum í Charlottesville þar sem hópi nýnasista og kynþáttahatara lenti saman við mótmælendur. Viðbrögð forsetans voru gagnrýnd á sínum tíma en hann sagði að gott fólk hefði verið í báðum hópum.

Þótt Trump hefði ekki verið nefndur á nafn í ræðu leikstjórans brást forsetinn við henni á Twitter-síðu sinni í morgun. Hann gerði grín að því hvernig Lee flutti ræðuna og fann að því að hann skyldi hafa þurft að skrifa niður „rasíska pillu“ á forsetaembættið. Fáir forsetar hefðu gert jafn mikið fyrir blökkumenn og hann.

Spike Lee hefur líka verið í kastljósinu vegna uppákomu sem átti sér stað þegar tilkynnt var að Green Book hefði orðið fyrir valinu sem besta myndin. Bandarískir fjölmiðlar segja að leikstjórinn hafi gert tilraun til að strunsa út úr Dolby-leikhúsinu en þegar honum hafi verið vísað aftur í sæti sitt hafi hann snúið baki í sviðið. „Mér leið eins og ég sæti á Knicks-leik í Madison Square Garden og dómari hefði tekið ranga ákvörðun,“ sagði Lee eftir hátíðina en hann er einhver heitasti stuðningsmaður New York Knicks í bandarísku NBA-deildinni í körfubolta.