„Ég er með eina samviskuspurningu fyrir ykkur: Eruð þið í stuði?“ spurði Eyþór félaga sína á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þegar hann ávarpaði þá í kvöld.
„Þetta eru frábærar fyrstu tölur, auðvitað fyrstu tölur, en þetta eru bestu tölur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur séð í Reykjavík í tólf ár. Hann er aftur orðinn það sem sem hann á að vera: stærstur,“ sagði Eyþór og uppskar klapp. „Það sem er ennþá mikilvægara er að þessi meirihluti sem er búinn að vera hérna alltof lengi hann er fallinn.“
Við erum að sækja á og bæta fylgi þrátt fyrir að sótt sé að okkur úr öllum áttum sagði Eyþór. Hann sagði að fólkið í borginni hefði sent þau skilaboð að það vildi breytingar. „Og það er að treysta okkur, Sjálfstæðisflokknum, sem byggði upp þessa borg með öllu því sem er í grunninn hér, treysta honum til að leiða þessar breytingar. Og það eru mikilvægustu skilaboðin.“
Eyþór sagði að kosningabaráttan hefði verið málefnaleg og bað fólk að klappa fyrir öðrum flokkum sem voru í framboði.