Regnskóga er nær útilokað að endurreisa

Mynd með færslu
 Mynd:

Regnskóga er nær útilokað að endurreisa

27.02.2014 - 15:02
Hvers vegna er mikilvægt að vernda regnskóga? Stefán Gíslason fjallar um regnskógana í pistli sínum sem lesa má hér að neðan

Líklega eru flestir meðvitaðir um mikilvægi þess að vernda regnskóga heimsins. Hins vegar hafa sjálfsagt færri velt því mikið fyrir sér hvers vegna það sé svona mikilvægt og hvernig íslenskur almenningur geti komist hjá því að spilla regnskógunum með daglegum athöfnum sínum, þ.e.a.s. ef íslenskur almenningur á nokkra sök á eyðingu þeirra yfirleitt.

 Regnskógar eru stundum kallaðir „lungu jarðarinnar“, en það er eiginlega rangnefni, því að regnskógar framleiða í raun lítið af súrefni, nema þá til eigin nota. Og þeir binda heldur ekki mikið af koltvísýringi frá degi til dags. Þroskaður regnskógur er nefnilega býsna stöðugt kerfi, þar sem framleiðsla og neysla haldast nokkurn veginn í hendur.

 Þó að regnskógar bindi ekki mikið af koltvísýringi frá degi til dags, losnar óheyrilegt magn af koltvísýringi út í andrúmsloftið þegar regnskógar eru felldir. Í regnskógum þrífst nefnilega gríðarlega mikill lífmassi á hverjum fermetra og í þessum lífmassa eru kynstrin öll af kolefni sem losnar út í andrúmsloftið eftir að skógurinn er felldur, ekki allt í einu, heldur smátt og smátt eftir því sem lífrænu efnin brotna niður við rotnun eða bruna. Eyðing regnskóga stuðlar því beinlínis að loftslagsbreytingum.

 Lífmassinn í regnskógunum er ekki bara einhver massi, heldur samanstendur hann af ótrúlegum fjölda lífvera af ýmsu tagi, bæði úr dýra- og jurtaríkinu, já og reyndar líka lífverum sem tilheyra hvorugu þessara ríkja, þ.e.a.s. sveppum. Í þessum fjölskrúðuga hópi lífvera eru milljónir tegunda af plöntum, skordýrum og smásæjum lífverum sem við höfum ekki hugmynd um að séu til. Og af þeim tegundum jarðar sem við vitum um á meira en helmingur uppruna sinn í regnskógunum. Og þó að mannskepnan hafi ekki endilega dagleg not af þessum lífverum, þá gætu þarna leynst lausnir á býsna mörgum þeirra vandamála sem mannkynið á eftir að glíma við á næstu áratugum og öldum. Regnskógarnir eru stundum sagðir vera stærsta lyfjabúr í heimi, því að þaðan höfum við fengið um fjórðung af öllum þeim náttúrulyfjum sem til eru. Og rétt eins og við þekkjum ekki lífríki regnskóganna nema að litlu leyti höfum við litla hugmynd um þau efni sem þar kunna að leynast og geta komið í góðar þarfir síðar meir.

 Margir kunna að halda að jarðvegur regnskóganna sé einstaklega frjósamur. Sú er þó alls ekki raunin. Ef skógurinn er felldur stendur eftir tiltölulega snauður jarðvegur, sem í þokkabót skolast auðveldlega í burtu í stórrigningum. Með skóginum hverfur líka hæfileiki svæðisins til að halda í sér vatni. Í reynd getur leiðin niður á við því verið býsna brött – frá regnskógi til eyðimerkur.

 Þegar rýnt er í tölur um eyðingu regnskóga á síðustu árum og áratugum kemur heldur svört mynd í ljós. Nú þegar hefur næstum 90% af regnskógum í vestanverðri Afríku verið eytt, og ef svo heldur sem horfir verður búið að fella alla regnskóga í Indónesíu innan 10 ára, svo dæmi séu tekin. Í Indónesíu á framleiðsla á pálmaolíu stærstan hlut að máli.

 Þó að bæði Borgarnes og Reykjavík séu býsna fjarri regnskógum heimsins eigum við sem búum á þessum stöðum okkar þátt í eyðingu þeirra, að minnsta kosti ef við förum ekki að öllu með gát. Gríðarlega stór flæmi af regnskógum hafa nefnilega verið felld til að hægt sé að framleiða meira af ýmsum vörum sem við kaupum án þess að blikna eða blána. Þetta á samt ekki við um pappír eins og sumir halda, því að væntanlega er allur okkur pappír framleiddur úr skógum sem eru sérstaklega ræktaðir til þess. Þegar við kaupum húsgögn gætum við hins vegar verið að ganga á regnskógana, sérstaklega ef húsgögnin eru gerð úr harðviði. Til að forðast þetta ættum við að spyrja um uppruna timbursins sem var notað í húsgögnin. Í því sambandi er allt í lagi að minna á að spurningar hafa ekki bara þann tilgang að kalla eftir svörum. Með því að spyrja gefum við líka til kynna að okkur sé ekki sama. Og til að vera nú alveg viss ættum við helst að velja Svansmerkt húsgögn, og ef þau eru ekki fáanleg ættum við að kaupa húsgögn með FSC-vottun, þ.e.a.s. vottun frá samtökunum Forest Stewardship Council.

 En húsgagnaframleiðsla úr harðviði er ekki eina ógnin sem steðjar að regnskógunum af okkar völdum. Regnskógar hafa líka verið ruddir til að rýma fyrir mannvirkjum og til að búa til beitilönd fyrir nautgripi og plantekrur þar sem afurðir á borð við pálmaolíu og sojabaunir eru ræktaðar í stórum stíl. Þarna er hætt við að venjulegir Borgnesingar og venjulegir Reykvíkingar séu meðsekir.

 Lítum fyrst á pálmaolíuna. Slík olía, hvaðan sem hún annars kemur, er notuð í ólíklegustu vörur sem við kaupum til daglegra nota. Þar má nefna snyrtivörur af ýmsu tagi, sápur, súkkulaði, brauð, kökur, kex, eldsneyti – og jafnvel kerti og sitthvað fleira. Í þessu sambandi má t.d. rifja upp úttekt sem gerð var í Bretlandi fyrir einu og hálfu ári, þar sem nokkur af þekktustu snyrtivörufyrirtækjum heimsins fengu algjöra falleinkunn vegna þess að þau notuðu óvottaða pálmaolíu í vörurnar sínar. Fegurðin sem snyrtivörunum er ætlað að framkalla, dofnar vissulega nokkuð ef hún byggir á eyðingu regnskóga.

 Hvað pálmaolíuna varðar, er okkur neytendum reyndar vandi á höndum, því að stundum stendur bara „jurtaolía“ í innihaldslýsingunni, og þá er engin leið að vita hvort um sé að ræða pálmaolíu af fyrrverandi regnskógasvæðum eða eitthvað allt annað. Þess vegna eigum við líka alltaf að spyrja ef við erum ekki viss! Og þarna koma umhverfismerkin enn í góðar þarfir, því að umhverfismerktar vörur innihalda ekki olíu sem er upprunnin af þessum svæðum.

 Sojabaunir eru annað dæmi um plöntuafurð sem er í vaxandi mæli framleidd á svæðum þar sem áður voru regnskógar. Þeir sem kaupa lífrænt vottaðar sojaafurðir taka hins vegar ekki þátt í þessari þróun, auk þess sem þeir geta treyst því að viðkomandi vara sé ekki úr erfðabreyttu efni, þó að það sé út af fyrir sig annað mál. Erfiðara getur reynst að forðast kjöt af dýrum sem alin eru á soja með þennan uppruna, en soja er í vaxandi mæli að finna í fóðurblöndum af ýmsu tagi. Besta leiðin til að forðast þetta er að borða fyrst og fremst kjöt af dýrum sem alin eru á grasi eða korni úr heimabyggð.

 Fljótt á litið kann að virðast auðvelt að rækta nýjan regnskóg í staðinn fyrir þann sem felldur er. En málið er ekki alveg svo einfalt. Regnskógar eru nefnilega mjög sérstakt og flókið vistkerfi sem nær útilokað er að endurreisa, jafnvel þótt jarðvegurinn hafi ekki skolast burt eins og gerist þegar verst lætur. Regnskógur er ekki bara tré, hann er lífríki sem allt byggir á einstöku samspili lífsins sem þar þrífst. Ef menn efast um hið raunverulega verðmæti regnskóga, væri því lærdómsríkt að velta því fyrir sér hvað það kosti að búa til nýjan.