Reglur um kaup útlendinga þrengdar

03.05.2013 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Útlendingar með lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu fá ekki að kaupa land á Íslandi, nema þeir dvelji hér á landi eða hafi hér starfsemi. Þetta kemur fram í nýrri reglugerð sem innanríkisráðuneytið kynnti í gær.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir þetta ekki brjóta í bága við EES samninginn.

Tilkynning um þessa reglugerð var send fjölmiðlum seint í gærkvöld, en hún var hins vegar undirrituð um miðjan síðasta mánuð. Í henni kemur fram að rétturinn til frjálsra fjármagnsflutninga, sem er ein af grunnstoðum EES samningsins, sé ekki sjálfstæður réttur heldur verði að skoðast í tengslum við aðra þætti fjórfrelsisins; frjálsa för, réttinn til staðfestu og þjónustustarfsemi. Það þýðir að útlendingar með lögheimili á EES svæðinu mega ekki lengur kaupa hér land nema til að hafa lögmæta starfsemi eða búsetu.

Með þessu er verið að þrengja reglur sem verið hafa í gildi síðan 2002, segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. „Þá tel ég að hafi verið gerð mistök með því að slaka á þessum heimildum og við erum að vinda ofan af þeim mistökum. Síðan þarf að stíga frekari skref til að tryggja dreifðara eignarhald á landi hvort sem um er að ræða erlenda menn eða innlenda,“ segir hann.

Þessi reglugerð hefur ekki verið kynnt á vettvangi EFTA, eða fyrir eftirlitsstofnun samtakanna. Ögmundur segir að tveir lagaprófessorar, annar íslenskur og hinn danskur, hafi farið yfir málið og komist að þeirri niðurstöðu að reglugerði brjóti ekki í bága við samninginn um evrópska efnahagssvæðið.

Hann segist ekki geta útilokað að þessar þrengdu reglur gildi afturvirkt. „Fyrst og fremst þegar menn setja lög eða reglugerðir, þá horfa þær fram í tímann. Þær gilda frá þeirri stundu sem þær eru settar en síðan, þegar fram líða stundir, kunna menn að reyna að laga praxísinn að þeim reglum sem við höfum sett okkur,“ segir Ögmundur.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi