Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Reglur um blóðgjöf löngu orðnar úreltar

19.08.2018 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Viglundsson - RÚV
Það er tímaskekkja að samkynhneigðum körlum sé enn óheimilt að gefa blóð á Íslandi, segir Unnsteinn Jóhannsson, alþjóðafulltrúi Samtakanna '78. Hann fagnar því að dönsk stjórnvöld hafi nú aflétt sams konar banni. 

Fram kom í fréttum RÚV í gær að frá næstu áramótum fái samkynhneigðir karlmenn leyfi til þess að gefa blóð í Danmörku, hafi þeir ekki stundað kynlíf með öðrum körlum í fjóra mánuði. Unnsteinn segir að þetta sé mikið fagnaðarefni fyrir Dani. „Oftast er þetta eitt ár, eða sex mánuðir í kynlífsbindindi en þau eru komin í fjögurra mánaða bið. Persónulega finnst mér að ekki eigi að vera með nein bindindi af því það heftir enn þá eitthvað en þetta er allavega skref í rétt átt.“

Hérlendis er körlum sem stunda kynlíf með öðrum körlum alfarið bannað að gefa blóð. Umræða um að breyta þeim reglum hefur reglulega komið upp. Ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu var sett á laggirnar 2010. Árið 2014 þegar Bandaríkjamenn afléttu sams konar banni, var rætt í nefndinni hvort ástæða væri til að aflétta því hér á landi.

Mikilvægt að geta verið fullgildur þegn

Unnsteinn segir fyrirkomulagið hér á landi löngu úrelt en vanda þurfi til verka við breytingar. „Þetta er eiginlega regla frá 1980 og heldur betur kominn tími til að endurskoða þetta. En auðvitað þurfa sérfræðingarnir hér heima að fá að kynna sér það sem er í gangi í Norðurlöndunum og löndunum í kringum okkur til að átta sig á því að hvaða leiðir þau eru að fara.“

Óttar Proppé, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, taldi einnig ríka ástæðu til að endurskoða þessar reglur og taka mið af þróun síðustu ára. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, staðfestir í samtali við fréttastofu að verið sé að skoða þessi mál í ráðuneytinu. 

Hvers vegna er þetta mikilvægt skref fyrir ykkur? „Vegna þess að það er mikilvægt að vera fullgildur þegn í þjóðfélaginu og þetta er eitt af þeim skrefum og manni finnst maður vera svolítið út undan þegar það er kallað eftir meira blóði í Blóðbankann og maður getur ekki sökum þess hverjum maður sefur hjá gefið blóð.“ segir Unnsteinn. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV