Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Reglugerð til lausnar deilu um sjóstangaveiði

21.03.2018 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað nýja reglugerð um sjóstangaveiðimót. Sjóstangaveiðimenn hafa í marga mánuði deilt við Fiskistofu og var einungis eitt félagsmót haldið í fyrra. Ritari Landssambands sjóstangaveiðifélaga segir að með reglugerðinni sé deilan leyst og að það stefni í gott sjóstangaveiðiár. 

Samkvæmt lögum ber Fiskistofu að taka ákvörðun um það árlega hvort veita skuli sjóstangaveiðifélögum heimild til að halda mót og skrá afla. Félögum er heimilt að nota aflaverðmæti til þess að standa straum af mótskostnaði, en deilt hefur verið um hvað fellur þar undir. Þá hafa sjóstangaveiðimenn kvartað yfir því að Fiskistofa geri sífellt strangari kröfur um mótshaldið og fari fram á of ítarlegar upplýsingar um reksturinn. Í fyrra veitti Fiskistofa aðeins tveimur félögum af níu heimild til að halda mót. 

Fallið frá takmörkunum

Markmiðið með nýju reglugerðinni er að einfalda aflaskráningu og kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að hún hafi verið sett að höfðu samráði við Landssamband sjóstangaveiðifélaga og Fiskistofu. Samkvæmt reglugerðinni skal selja afla á markaði og greiða 10% af söluandvirði, umfram 500.000 krónur, til ríkisins. Fallið er frá öllum takmörkunum við nýtingu aflaverðmætis, en í fyrri reglugerð mátti aðeins nýta það til að greiða kostnað við afmarkaða þætti mótshalds. 

„Í skýjunum með þetta“

Sigurjón Már Birgisson, ritari Landssambands sjóstangaveiðifélaga, segir að þessi reglugerð leysi deiluna. „Við erum bara mjög sátt og teljum okkur geta unnið vel með þetta. Þetta einfaldar allt fyrir okkur,“ segir Sigurjón. Hann segir að ráðherra hafi boðað fulltrúa Landssambandsins og Fiskistofu á fund á dögunum þar sem leitast hafi verið við að sætta aðila. Niðurstaðan hafi verið tillaga sem allir hafi fallist á og birtist í nýrri reglugerð. 

Sigurjón er bjartsýnn á að öll félög fái heimild til þess að halda mót í ár. „Við lögðum aftur inn umsóknir fyrir þær sem var hafnað. Ég bíð bara spenntur eftir því að fá staðfestingu á leyfum og þeir voru vongóðir um að það næðist fyrir páska. Við erum alveg í skýjunum með þetta,“ segir Sigurjón.