Reglugerð sett um veiðar makríls

17.06.2015 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur samþykkt reglugerð um veiðar á makríl. Undanfarin ár hefur kvóta verið úthlutað með reglugerð sem byggir á núgildandi lögum um fiskveiðistjórnun.

Þetta kemur fram á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Reglugerðina má finna hér. Einnig hefur ráðherra samþykkt reglugerð um úthlutun kvóta almennt fyrir næsta fiskveiðiár. Þar fer ráðherra að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar þriðja árið í röð.

Miklar deilur hafa staðið yfir á Alþingi það sem af er viku vegna frumvarps um makrílveiða. Sigurður Ingi hefur lagt til breytingar á frumvarpinu sem eru á þann veg að kvóta verði úthlutað samkvæmt núgildandi lögum. Kvóta verði úthlutað til þriggja ára og framsal einnig bannað til þriggja ára.

Stjórnarandstaðan hefur mótmælt frumvarpinu harðlega. Gengi hafi verið út frá því að samkomulag lægi fyrir um afgreiðslu stóru málanna, rammaáætlun og makrílfrumvarp, en svo virðist ekki hafa verið. Þingfundi var ítrekað frestað í gær vegna deilunnar.

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi