Réðust á mann og rændu af honum úlpu

07.02.2019 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Tveir karlmenn voru í Héraðsdómi Norðurlands eystra dæmdir í 15 og 12 mánaða fangelsi fyrir rán og líkamsárás á Akureyri í október fyrir tveimur árum. Tvímenningarnir veittust að manni bak við veitingastað við Strandgötu, hótuðu að búta hann niður, skera hann á háls og stinga hníf upp í heila hans. Mennirnir höfðu úlpu, síma og rúmar 4 þúsund krónur í reiðufé upp úr krafsinu.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að lögreglu hafi borist tilkynning um slagsmál bakvið veitingastað á Strandgötu. Enginn hafi verið á staðnum þegar lögreglu bar að garði en hún litaðist um og kom fljótlega auga á þrjá menn ganga norður Ráðhústorg fyrir framan Kaffi Amor. Það vakti athygli lögreglu að einn mannanna var í stuttermabol þrátt fyrir talsverðan kulda. 

Lögreglan gaf sig á tal við mennina þrjá og tók þá eftir því að það blæddi úr höfði eins þeirra og að sá virtist býsna hræddur. Hinir mennirnir tveir virkuðu hins vegar æstir og í annarlegu ástandi. Þeir voru handteknir í framhaldinu en sá slasaði fluttur á slysadeild til aðhlynningar. 

Maðurinn sem var rændur sagðist hafa legið í fráhvörfum og verið búinn að ákveða að hætta allri neyslu þegar annar árásarmannanna hafi komið  og sakað hann um þjófnað.  Þeir hafi síðan farið saman og sagðist maðurinn hafa grunað að hann yrði notaður sem beita til að ræna félaga þeirra. Þeir hafi síðan hitt hinn árásarmanninn á bak við veitingastaðinn við Strandgötu og þar hafi árásarmennirnir tveir „snappað“ eins og hann orðaði það í skýrslutöku  fyrir dómi.

Þeir hafi talað um að nota hann í vændi, fara með hann út í sveit, drepa hann,  búta hann niður og fleygja honum út í skurð. Þeir hafi síðan rifið hann úr úlpunni og tekið af honum skóna, síma, veski og 4.500 krónur í reiðufé og síðan ætlað með hann í hraðbanka til að taka út meiri pening. Maðurinn sagðist hafa liðið mjög illa eftir atvikið, hann hefði þurft á kvíðalyfjum að halda og reynt að forðast Akureyri eftir fremsta megni. 

Árásarmennirnir gáfu einnig skýrslu en framburður var „að engu hafandi,“ eins og það er orðað í dómi héraðsdóms.  Var annar mannanna því dæmdur í 15 mánaða fangelsi en hinn hlaut tólf mánaða dóm.  Var þeim jafnframt gert að greiða manninum 600 þúsund krónur í miskabætur. 

Sá sem hlaut þyngri dóminn var um tíma eftirlýstur af Interpol. Hann var sagður hafa farið úr landi áður en hægt var að birta honum ákæru í málinu.  Hann kom síðan aftur til Íslands skömmu eftir að lýst var eftir honum. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi