Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Reðasafnið flutt til Reykjavíkur

12.10.2011 - 19:55
Gámur fullur af getnaðarlimum lagði af stað frá Húsavík í dag. Limirnir eru í eigu Reðasafnsins sem flytur nú í höfuðborgina. Það var heldur tómlegt um að litast á Hinu íslenzka Reðasafni á Húsavík í dag, enda búið að pakka öllum dýrgripum safnsins niður.

Eigandinn, Sigurður Hjartarson, segist vera orðinn of gamall og þreyttur fyrir reksturinn, en sonur hans, Hjörtur, tekur þess í stað við safninu sem hann mun reka við Hlemm í Reykjavík.

Þegar síðasti gripurinn var borinn út var viss eftirsjá í loftinu enda Sigurður búinn að reka safnið með fullri reisn í fjórtán ár.

„Auðvitað er það, maður hefur fengið svolítið kikk út úr þessu en þetta er bara það sem gerist, einhverntíman kemur að því að maður hættir.“

Reðasafnið þykir einstakt á heimsvísu og hefur laðað margan ferðamanninn til Húsavíkur. Ekki minnkaði aðdráttarafl safnsins í vor þegar mannslimur bættist í safneignina.

Ætla má að flutningur safnsins frá Húsavík sé þungt högg fyrir ferðaþjónustu í bænum, en alls komu tólf þúsund gestir í safnið í sumar.

„Þetta er náttúrulega hluti af aðdráttarafli bæjarins en það er ekkert við því að gera, þeir koma bara með eitthvað annað, kannski eitthvað ennþá meira spennandi.“