Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Reðasafnið flutt

19.04.2011 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Forstöðumaður Húsavíkurstofu segir það hræðilegt áfall fyrir ferðaþjónustuna á Húsavík ef Hið íslenska reðasafn fer úr bænum. Til stendur að flytja safnið til Reykjavíkur eftir sumarið.

Hið íslenska reðasafn var opnað í Reykjavík árið 1997 af Sigurði Hjartarsyni en hann flutti safnið til Húsavíkur árið 2004. Sonur Sigurðar, Hjörtur Gísli Sigurðsson, er nú að taka við rekstri safnsins og hyggst hann flytja það aftur til Reykjavíkur. Að sögn Einars Gíslasonar, forstöðumanns Húsavíkurstofu, yrði mikill missir að safninu. 


Safnið hafi verið frábær viðbót við það safnalíf sem verið hafi fyrir á Húsavík og ekki hafi skemmt fyrir að það sé eina safn sinnar tegundar í heiminum. Ferðamenn spyrji iðulega um reðasafnið og Húsavík njóti góðs af því. Það yrði hræðilegt áfall fyrir ferðaþjónustuna á Húsavík færi safnið. Einar segist vona að ferðaþjónustan og sveitarfélagið taki höndum saman og sjái til þess að safnið verði áfram í bænum.


Hjörtur Gísli segir til skoðunar hvort ekki sé hægt að hafa lítið útibú frá safninu áfram á Húsavík. Þá feðgana langi til þess að halda einhverjum hluta safnsins fyrir norðan, reka þetta í smærra mæli í samvinnu við aðra.