Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Raungengi krónu ekki sterkara í 37 ár

22.05.2017 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Raungengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum hefur ekki verið sterkara frá árinu 1980. Þetta segir forstöðumaður greiningardeildar Arion-banka. Iðnfyrirtæki, sjávarútvegur og sprotafyrirtæki finni mest fyrir þessu. Bandaríkjadalur kostar nú minna en hundrað krónur. Fjármálaráðherra segir að gengisstyrkingin sé farin að ógna íslenskum fyrirtækjum og þar með störfum.

Íslenska krónan heldur áfram að styrkjast og nú er svo komið að Bandaríkjadalur kostar minna en 100 krónur, Sterlingspundið tæpar 130 krónur og Evran 112, samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lýst áhyggjum af styrkingu krónunnar og talið þörf á að tengja hana við erlendan gjaldmiðil. Hann segist verða var við ótta atvinnurekenda við hátt gengi krónunnar. Sterk króna hafi óneitanlega þann kost að innfluttur varningur verði ódýrari og hægt sé að fara í utanlandsferðir fyrir minni pening en áður. 

„Á sama tíma er þetta að grafa undan fyrirtækjunum og þá er þetta að verða ógn við atvinnu fjölmargra einstaklinga. Ísland er ekki jafn samkeppnishæft og það ætti að vera og þá erum við komin á hættulegar slóðir,“ segir Benedikt.

Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður Greiningardeildar Arion-banka, segir að krónan hafi styrkst verulega frá áramótum, um sex prósent gagnvart evru og um tólf prósent gagnvart Bandaríkjadal. Ekki sé nóg að skoða nafngengi heldur verði einnig að líta til raungengis krónunnar gagnvart gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda. „Einhverjir kunna að hugsa sem svo: ja, hún er bara í 99 krónum eða rétt undir hundrað kalli og muna tímabil þar sem hún var kannski í kringum sextíu. En það er raungengið sem skiptir mestu máli. Þá er maður að horfa á gengi gjaldmiðilsins og leiðrétta fyrir eða horfa á hann í samhengi við verðlag eða laun. Gagnvart gjaldmiðlum almennt séð, þá sýnist manni að raungengið hafi ekki verið sterkara, frá því a.m.k. 1980 eða eitthvað svoleiðis,“ segir Stefán Broddi. 

Stefán Broddi segir að ferðaþjónustan sé helsta ástæða styrkingar krónunnar. Erfitt sé að sé að segja til um hvenær sterk króna fari að koma það mikið niður á útflutningsgreinum og ferðaþjónustu að krónan fari að veikjast. Stefán Broddi bendir á að Arion-banki hafi lækkað spár sínar um fjölda ferðamanna á næsta ári. „Ég held að við séum farin að sjá áhrif af sterkari krónu, t.a.m. á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Sama mun auðvitað gerast með ákveðin ferðaþjónustufyrirtæki og iðnað og til langframa getur maður sagt að ákveðin vaxtafyrirtæki, sprotaiðnaður – sem getur byggst upp á Íslandi eða annars staðar – hann mun eiga erfiðara um vik að byggjast upp á Íslandi heldur en erlendis,“ segir Stefán Broddi. 

Stefán Broddi segir að ekki sé víst að ferðamannafjöldinn í sumar skili sér í áframhaldandi styrkingu krónunnar. Þá skiptir máli hvort innlendir fjárfestar, eins og lífeyrissjóðir, auki fjárfestingar sínar erlendis. Og hvort Seðlabankinn kaupir eða selur krónur. „En svona flæðið virðist síðustu daga hafa verið í þá átt að styrkja krónuna en það eru ansi margir ytri áhrifaþættir sem geta haldið aftur af henni,“ segir Stefán Broddi.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV