Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rauðu blómin

Rauðu blómin

02.06.2017 - 15:17

Höfundar

Elísabet Jökulsdóttir fjallar um blómarækt á tímum trölliðju.

Á þessum stóriðjutímum — eða trölliðjutímum svo vitnað sé í listamenn sem eru farnir að koma auga á tröll í nútímanum, en nú eru verksmiðjur gangsettar á nýjan leik þrátt fyrir að hafa mengað heilt bæjafélag, og ein verksmiðja rís á Húsavík í grennd við Tjörnes einar dýrmætustu náttúruleifar landsins — já, á þessum trölliðjutímum, þá er ekki úr vegi að rifja upp þegar ég bauð Alcoa í bíó, nánar tiltekið á myndina Pirates of the Caribbean, þar sem Johnny Deep heldur því fram í lokin að markaðsöflin hafi eyðilagt ævintýrið.

Alcoa bauðst tilað hitta mig á lífræna kaffihúsinu Hljómalind tilað taka á móti bíómiðunum sem, kom svo í ljós að Alcoa ætlaði ekki að þiggja sjálfur heldur gefa barnabarni sínu. Já svona var Alcoa mikið gæðablóð, þótt verið væri að reisa verksmiðu hér í þeirra nafni og til þess þurfti að eyðileggja kraftmesta fljót á Íslandi, mestu gljúfrin og annað smáræði.

 Alcoa lýsti því yfir hvað Hljómalind væri dásamlegt kaffihús, alltaf þegar Alcoa væri á Ísland þá kæmi Alcoa hingað, ekki nóg með það heldur hefði Alcoa hrifist af höfrungum og töfraverum hafsins frá unga aldri. En þó risu gæði Alcoa hæst þegar hann trúði mér fyrir því að Alcoa væri að rækta rauð blóm í bakgarði fyrirtækisins í Ástralíu.

Það munaði engu að ég félli fyrir þessu og hringdi í móður mína eftir samtalið en hún var reynd blaðakona og sagði  henni frá samtalinu. En þegar kom að rauðu blómunum þá fussaði hún og sagði: Já, láttu mig þekkja þá. Þeir segjast allir vera að rækta rauð blóm.