Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rauðir Khmerar dæmdir fyrir þjóðarmorð

16.11.2018 - 06:40
Mynd með færslu
Nuon Chea  Mynd:
Mynd með færslu
Khieu Samphan Mynd:
Tveir af æðstu leiðtogum Rauðu Kmeranna voru í morgun dæmdir sekir um aðlild að þjóðarmorði í Kambódíu á áttunda áratugnum og dæmdir í lífstíðarfangelsi. Er þetta í fyrsta skipti sem kambódískur dómstóll dæmir menn úr ógnarstjórn Pols Pots seka um þjóðarmorð. Hinn 92 ára Nuon Chea, hægri hönd Pols Pots, og Khieu Samphan, forseti Kambódíu frá 1976 - 1979, voru ákærðir fyrir þjóðarmorð á tveimur minnihlutahópum í landinu; Kambódíumönnum af víetnömskum uppruna og Cham-múslímum.

Báðir voru sekir fundnir um þjóðarmorð á víetnömskum Kambódíumönnum, en einungis Nuon Chea var dæmdur sekur um þjóðarmorð á Cham-múslímum. Þá voru þeir báðir ákærðir og sakfelldir yrir margvíslega glæpi gegn mannkyni  þar sem þeir voru taldir bera mikla ábyrgð á þrælkun, kynlífsþrælkun, pyntingum og fjölmörgum illvirkjum öðrum sem stunduð voru með skipulögðum hætti í valdatíð þeirra.  

Dómstóllinn, sérstakur dómstóll sem settur var á laggirnar til að fjalla um glæpi Rauðu Khmeranna, hafði áður dæmt tvímenningana í ævilangt fangelsi. Það var árið 2104, en þá voru þeir fundnir sekir um glæpi gegn mannkyni vegna aðildar þeirra að ofbeldisfullum og mannskæðum nauðungarflutningum hundraða þúsunda úr úr Pnohm Penh og öðrum borgum landsins. Þeir voru báðir handteknir árið 2007 og ákærðir fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Hafa þeir verið í haldi allar götur síðan. Talið er að allt að tvær milljónir Kambódíumanna hafi dáið hungurdauða, verið þrælað í hel eða teknir af lífi í þjóðernishreinsunum Rauðu khmeranna á árunum 1975 - 1979, eða hartnær fjórðungur allra landsmanna. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV