Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ratcliffe kaupir Grímsstaði á Fjöllum

19.12.2016 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: INEOS Group - Jim Ratcliffe
Breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe hefur keypt meirihlutann í Grímsstöðum á fjöllum. Fram kemur í tilkynningu frá honum að hann kaupi jörðina til að vernda laxveiðiár á Norðausturlandi.

Eins og komið hefur fram í fréttum hefur Ratcliffe keypt þrjár jarðir í Vopnafirði en þar eru gjöfular laxveiðiár. Fram kemur í tilkynningunni frá Ratcliffe að á Grímsstöðum sé vatnasvið mikilvægra laxveiðáa á Norðausturlandi og að kaupin á landinu sé þáttur í því að vernda villta laxastofna við Atlantshaf. Íslenska ríkið á enn hluti í jörðinni og einnig nokkrir aðrir landeigendur.

Skemmst er að minnast þess þegar kínverski fjárfestirinn Huang Nubo áformaði að kaupa Grímsstaði fyrir rúman milljarð en ekkert varð úr því. Grímsstaðir voru auglýstir til sölu í október og var ásett verð 780 milljónir. Skýrt er tekið fram í tilkynningunni frá Ratcliffe að verndun umhverfis sé eini tilgangurinn með landakaupum hans á Norðausturlandi og að hann vilja vinna með bændum að því að vernda árnar og tryggja áframhaldandi landbúnað á sama tíma.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var afsali þinglýst á föstudag. Elvar Daði Guðjónsson, sem rekur ferðaþjónustu í Grímstungu á Grímsstöðum á Fjöllum, segir í samtali við fréttastofu að talsmaður Ratcliffe hafi hringt í hann síðdegis og tilkynnt um kaupin og að allt yrði óbreytt hvað ferðaþjónustuna snerti.

Nýr laxastigi stækkaði mjög búsvæði laxins

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs sem fer með veiðirétt í Selá og Hofsá í Vopnafirði, segir að árið 2011 hafi verið opnaður svokallaður efri stigi í Selá og við það hafi gríðarlegt vatnasvæði orðið aðgengilegt fyrir lax. „Við höfum ekki hugmynd um hversu langt laxinn gengur en fiskur hefur sést allt að 12 kílómetrum fyrir ofan stigann,“ segir Gísli. Bæði hluti Selár og Hrútár sem er hliðará hennar nái inn í Grímsstaðaland. „Allt okkar uppbyggingarstarf miðar að því að auka það svæði sem fiskurinn hefur og hugsanlega í framtíðinni bætir þetta við náttúrulegan stofn Selár,“ segir Gísli.

 

Viðbót kl. 17:30:

Systkinin Jóhannes Haukur Hauksson og Guðný María Hauksdóttir seldu hluta sinn í Grímsstöðum. Þau áttu 50% af jörðinni. Jóhannes Haukur sagði í samtali við fréttastofu að kaupin séu búin að vera í bígerð í töluverðan tíma – einhverja mánuði. Kaupverðið sé trúnaðarmál.