Ratcliffe kaupir Brúarland 2 í Þistilfirði

15.07.2019 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: INEOS Group - Jim Ratcliffe
Fjárfestingafélagið Sólarsalir ehf. festi nýverið kaup á jörðinni Brúarlandi 2 í Þistilfirði. Gísli Ásgeirsson talsmaður breska auðkýfingsins Jims Ratcliffes staðfesti þetta í samtali við fréttastofu í morgun. Kaupverðið fæst ekki uppgefið og hann segir að frekari jarðakaup séu ekki áformuð. Félagið er í eigu Ratcliffes sem hefur undanfarin ár keypt jarðir í Vopnafirði og Þistilfirði.

Eftir kaupin eiga félög í eigu Ratcliffes meirihluta veiðiréttar í Hafralónsá sem er vinsæl laxveiðiá í Þistilfirði. 
Fyrir á Ratcliffe jarðirnar Hvamm eitt, þrjú og fjögur í Þistilfirði. Brúarland 2 er óskipt jörð úr landi Gunnarsstaða. Jóhannes Sigfússon bóndi á Gunnarsstöðum er formaður veiðifélags Hafralónsár. Hann segir að ekkert samráð hafi verið haft við landeigendur við kaupin.

„Alla vega hefur enginn hugmynd um þetta fyrr en það er búið að ganga frá þessu. Eins og þetta með að Brúarland sé byggt út úr Gunnarsstöðum og í óskiptu landi, þá höfum við ekki hugmynd um þetta fyrr en okkur er tilkynnt um þessa sölu. Ég held að skatturinn ætti nú að skoða þessi mál. Það er eini aðilinn sem hefur til þess tæki til hvernig þetta fer fram. Ég held að það sé svolítið mikið um það að þetta sé bara borgað allt með seðlum,“ segir Jóhannes.

Byggðaþróun áhyggjuefni

Hann segist jafnframt hafa áhyggjur af framtíð svæðisins. Búseta sé ekki tryggð þegar eignarhald sé á fárra höndum.
„Þessi auðlind okkar, þessar hlunnindatekjur sem hafa alltaf staðið með byggðinni. Bændurnir hafa notað tekjurnar í sinn rekstur og í uppbyggingu á jörðunum. Nú er þessi lífæð í meira og meiri mæli að fara út úr sveitarfélaginu og skilur ekkert eftir. Það er það alvarlega í þessu,“ segir Jóhannes.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi