Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ratcliffe gerði tilboð í jarðir í Þistilfirði

12.01.2017 - 12:15
Mynd með færslu
Safnmynd. Mynd: RÚV
Breski fjárfestirinn Jim Ratcliffe hefur sýnt mikinn áhuga á að kaupa jarðir í Þistilfirði með veiðirétti í Hafralónsá. Ratcliffe eignaðist jarðir í Vopnafirði í haust og skömmu fyrir jól keypti hann meiri hlutann í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum.

Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag. Þar er rætt við landeigendur sem segja að þeim hafi borist tilboð frá fulltrúum Ratcliffe og íslenska fjárfestisins Jóhannesar Kristinssonar, og staðhæfa að tilboð hafi verið gerð í allar jarðir við Hafralónsá. Fimmtán jarðir liggja að ánni og þeim fylgir jafn atkvæðisréttur í veiðifélagi árinnar.

Ætlar ekki að selja

Ekki er vitað hvort einhver tilboðanna hafa verið samþykkt en einn landeiganda er Marínó Jóhannsson, bóndi á Tunguseli. Hann ætlar ekki að selja sína landareign.

„Við erum nú tveir sem erum eigendur að þessari jörð og eftir þó nokkuð langa umhugsun þá settum við þetta bara hreinlega í salt og við erum ekkert að því komnir að selja,“ segir Marínó.

Vill ekki að fjárfestir eigi meirihluta

Ratcliffe og Jóhannes eiga fjölda jarða í Vopnafirði og breski fjárfestirinn eignaðist meirihluta í Grímsstöðum á Fjöllum fyrir jól. Marínó, sem er fyrrverandi formaður veiðifélagsins, segir að honum hugnist ekki að fjárfestir geti haldið meirihluta veiðiréttar í einstökum ám.

„Ef það yrði svo að fjármagnseigandi næði meirihluta veiðiréttar í veiðifélaginu að þá er það illa starfhæft eftir það,“ segir Marínó.

Honum finnst það verra að þarna sé erlendur fjárfestir á ferð.

„Jú, það er nú heldur lakara heldur en ef Íslendingar væru að sækja í þetta. Hvers vegna? Ja, ég vil að Ísland sé fyrst og fremst fyrir Íslendinga,“ segir Marínó.