Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rannsóknarnefnd enn ekki skipuð

10.01.2013 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna hefur enn ekki verið skipuð þó tveir mánuðir séu liðnir frá því Alþingi samþykkti að rannsóknin færi fram.

Þriggja manna rannsóknarnefnd á að skoða einkavæðingu Fjárfestingabanka atvinnulífsins, Landsbankans og Búnaðarbankans og skila niðurstöðu fyrir fyrsta september. Þegar tillagan var samþykkt á Alþingi voru ellefu mánuðir til stefnu - þeir eru nú níu og vinnan ekki hafin. Það er forsætisnefnd Alþingis sem skipar í rannsóknarnefndina.

Þær upplýsingar fengust hjá skrifstofu Alþingis að forsætisnefnd skipar í rannsóknarnefndina. Það verði ekki gert fyrr en önnur af þeim tveimur rannsóknarnefndum sem nú eru að störfum skilar af sér. Þar með losnar húsnæði og starfsfólk til að sinna rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna. Önnur hvor nefndin, um fall sparisjóðanna og rekstrarvanda Íbúðarlánasjóðs, ætti að geta skilað niðurstöðum í næsta mánuði.